1Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:2Þú mannsson, vilt þú dæma, vilt þú dæma hina blóðseku borg? Leið henni þá fyrir sjónir allar svívirðingar hennar3og seg: Svo segir Drottinn Guð: Ó borg, sem úthellti blóði innan borgarveggja sinna, til þess að tími hennar kæmi, og gjörði sér skurðgoð til þess að saurga sig.4Fyrir blóðið, sem þú hefir úthellt, ert þú sek orðin, og fyrir skurðgoðin, sem þú gjörðir, ert þú óhrein orðin. Þú hefir flýtt fyrir degi þínum, og ævilok þín eru komin. Þess vegna gjöri ég þig að háðung meðal þjóðanna og að athlægi allra landa.5Þeir sem eru nálægt þér og þeir sem eru langt frá þér munu hæða þig, þú borg með flekkað mannorð, full af róstum.6Sjá, höfðingjar Ísraels, sem í þér búa, úthella blóði, hver sem betur getur.7Hjá þér eru faðir og móðir fyrirlitin, við útlendinga beita menn kúgun í þér, munaðarleysingja og ekkjur undiroka menn hjá þér.8Þú fyrirlítur helgidóma mína og vanhelgar hvíldardaga mína.9Hjá þér eru bakmælgismenn, sem koma manndrápum til leiðar, hjá þér eta menn fórnarkjöt á fjöllunum, menn fremja saurlifnað í þér miðri.10Hjá þér bera menn blygðan föður síns, hjá þér nauðga menn konum, sem óhreinar eru vegna tíða.11Einn fremur svívirðu með konu náunga síns, annar flekkar tengdadóttur sína með saurlifnaði og enn annar nauðgar hjá þér systur sinni, dóttur föður síns.12Menn þiggja mútur hjá þér til þess að úthella blóði. Þú hefir tekið fjárleigu og vexti og haft af náunga þínum með ofríki, en mér hefir þú gleymt, segir Drottinn Guð.13En sjá: Ég slæ höndum saman yfir því rangfengna fé, sem þú hefir dregið þér, og yfir blóðskuld þeirri, sem í þér er.14Mun kjarkur þinn standast og hendur þínar haldast styrkar, þegar þeir dagarnir koma, er ég tek þig fyrir? Ég, Drottinn, tala það og mun framkvæma það.15Og ég mun tvístra þér meðal þjóðanna og dreifa þér út um löndin og gjörsamlega uppræta óhreinleik þinn úr þér,16og þú skalt vanhelguð verða í augsýn heiðingjanna, og þá skalt þú viðurkenna, að ég er Drottinn.17Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:18Mannsson, Ísraelsmenn eru orðnir fyrir mér eins og sori. Þeir eru allir eins og eir og tin og járn og blý í bræðsluofni, þeir eru orðnir sorasilfur.19Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Af því að þér eruð allir orðnir að sora, þá vil ég safna yður saman í Jerúsalem.20Eins og silfur og eir og járn og blý og tin er látið saman inn í bræðsluofn til þess að blása eldi að því og bræða það, þannig mun ég safna yður saman í reiði minni og gremi, láta yður þar inn og bræða yður.21Og ég mun stefna yður saman og blása að yður eldi gremi minnar, svo að þér skuluð bráðna þar.22Eins og silfrið er brætt í bræðsluofninum, svo skuluð þér bráðna í borginni og þá munuð þér viðurkenna, að ég, Drottinn, hefi úthellt reiði minni yfir yður.23Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:24Þú mannsson, seg við hana: Þú ert eins og land, sem ekki rigndi á, sem eigi var vökvað á degi reiðinnar,25en þjóðhöfðingjar þess voru í því sem öskrandi ljón, er rífur sundur bráð sína. Mannslífum hafa þeir eytt, eignir og dýrgripi hafa þeir tekið og fjölgað ekkjum í landinu.26Prestar hennar hafa brjálað lögmáli mínu og vanhelgað helgidóma mína. Þeir hafa engan mun gjört á því, sem heilagt er og óheilagt, og eigi frætt menn um muninn á óhreinu og hreinu, og þeir hafa lokað augum sínum fyrir hvíldardögum mínum, svo að ég vanhelgaðist meðal þeirra.27Yfirmenn hennar voru í henni eins og sundurrífandi vargar og hugsuðu ekki um annað en að úthella blóði og eyða mannslífum til þess að afla sér rangfengins gróða.28En spámenn hennar riðu á kalki fyrir þá með því að boða þeim hégómasýnir og flytja þeim lygispádóma og segja: Svo segir Drottinn Guð! þótt Drottinn hafi ekki talað.29Landslýðurinn hefir haft kúgun og rán í frammi, þeir hafa undirokað volaða og snauða og kúgað útlendinga án nokkurs réttar.30Og ég leitaði að einhverjum meðal þeirra, er hlaða vildi garð eða skipa sér í skarðið móti mér, landinu til varnar, til þess að ég legði það ekki í eyði, en ég fann engan.31Þá úthellti ég reiði minni yfir þá, gjöreyddi þeim með eldi gremi minnar, ég lét athæfi þeirra þeim í koll koma, segir Drottinn Guð.

22.3 Úthella blóði 1Mós 4.10
22.7 Faðir og móðir 2Mós 20.12; 3Mós 19.3; 5Mós 5.16; 27. 16 – þeir sem leita hælis 2Mós 12.48-49; 22.20; 3Mós 19.10,33-34 – munaðarleysingjar og ekkjur 2Mós 22.21; 5Mós 10.18; 24.17; 27.19; sbr Slm 146.9
22.8 Hvíldardagur 2Mós 20.8-11; 23.12; 31.12-17; 3Mós 19.3,30; 23.3; 4Mós 15.32-36; 5Mós 5.12-15; 1Makk 2.29-38; Mrk 2.27
22.9 Rógberar 3Mós 19.16
22.10 Svíðvirða konu föður 3Mós 18.7 – kona sem hefur á klæðum 3Mós 18.19
22.11 Svívirða 3Mós 18.9,15,20; 5Mós 22.22
22.12 Mútur 2Mós 23.8; 5Mós 16.19; 27.25 – vextir Esk 18.8+
22.15 Dreifa Esk 5.10+
22.18 Sori Jes 1.25; Jer 6.28-29
22.20 Málmbræðsla Mal 3.2-3
22.26 Vanhelgun Sef 3.4 – helgu og vanhelgu Esk 42.20; 3Mós 17-22 – hreint og óhreint Esk 44.23; 3Mós 11-16
22.28 Upplogin spámannsorð Esk 13.7+
22.29 Kúgun og rán Esk 18.7+