Biblíulestur – 17. febrúar – 1Mós 2.4–25
Á þeim degi er Drottinn Guð gerði himin og jörð var enginn runni merkurinnar til á jörðinni og engar jurtir spruttu því að Drottinn Guð hafði ekki enn látið rigna á jörðina. Og þar var enginn maður til þess að yrkja landið. En móðu lagði upp af jörðinni sem vökvaði allt landið.
Þá mótaði Drottinn Guð manninn af moldu jarðar og blés lífsanda í nasir hans. Þannig varð maðurinn lifandi vera.
Þá plantaði Drottinn Guð aldingarð í Eden, í austri, og setti þar manninn sem hann hafði mótað. Og Drottinn Guð lét spretta af jörðinni alls konar tré, girnileg á að líta og góð af að eta, ásamt lífsins tré í miðjum garðinum og skilningstré góðs og ills.
Fljót rennur frá Eden og vökvar garðinn. Þaðan kvíslast það og verður að fjórum stórám. Hin fyrsta heitir Píson. Hún fellur um allt landið Havíla þar sem gullið fæst. Gull þess lands er hreint. Þar er bedólat og ónyxsteinn. Önnur stóráin heitir Gíhon. Hún fellur um allt Kúsland. Þriðja stóráin heitir Tígris. Hún fellur fyrir austan Assýríu. Fjórða stóráin er Efrat.
Þá tók Drottinn Guð manninn og setti hann í aldingarðinn Eden til að yrkja hann og gæta hans.
Drottinn Guð bauð manninum og sagði: „Af öllum trjám í aldingarðinum máttu eta að vild. En af skilningstré góðs og ills máttu ekki eta. Jafnskjótt og þú etur af því muntu deyja.“
Og Drottinn Guð sagði: „Eigi er það gott að maðurinn sé einn. Ég vil gera honum meðhjálp við hans hæfi.“
Drottinn Guð mótaði nú öll dýr merkurinnar og alla fugla himinsins af moldu og lét þau koma fram fyrir manninn til þess að sjá hvað hann nefndi þau. Og hvert það heiti, sem maðurinn gæfi hinum lifandi skepnum, skyldu þær bera. Og maðurinn gaf öllu búfénu nafn ásamt fuglum loftsins og dýrum merkurinnar. En hann fann manninum enga meðhjálp við hæfi.
Þá lét Drottinn Guð djúpan svefn falla á manninn. Og er hann var sofnaður tók hann eitt af rifjum hans og setti hold í þess stað. Og Drottinn Guð myndaði konu af rifinu sem hann hafði tekið úr manninum og leiddi hana til mannsins.
Þá sagði maðurinn:
Loks er hér bein af mínum beinum
og hold af mínu holdi.
Hún skal kvenmaður kallast
af því að hún er af karlmanni tekin.
Af þessum sökum yfirgefur maður föður sinn og móður sína og býr með eiginkonu sinni, og þau verða eitt.
Þau voru bæði nakin, karlinn og kona hans, en blygðuðust sín ekki.
Biblíulestur – 12. janúar – Matt 3.13–17
Þá kom Jesús frá Galíleu að Jórdan til Jóhannesar að taka skírn hjá honum. Jóhannes vildi varna honum þess og sagði: „Mér er þörf að skírast af þér og þú [...]
Biblíulestur – 11. janúar – Slm 89.39–53
En nú hefur þú hafnað þínum smurða, útskúfað honum í reiði þinni, þú hefur rift sáttmálanum við þjón þinn, vanhelgað kórónu hans og fleygt til jarðar. Þú braust niður alla [...]
Biblíulestur – 10. janúar – 2Kro 36.11–21
Sedekía var tuttugu og eins árs þegar hann varð konungur og ríkti í Jerúsalem ellefu ár. Hann gerði það sem illt var í augum Drottins, Guðs síns. Hann lét ekki [...]
Biblíulestur – 9. janúar – Róm 10.5–17
Móse ritar um réttlætið sem lögmálið veitir: „Sá maður sem breytir eftir boðum þess mun lífið fá af því.“ En réttlætið af trúnni mælir þannig: „Seg þú ekki í hjarta [...]
Biblíulestur – 8. janúar – Post 7.51–60
Þið harðsvíraðir og óumskornir í hjörtum og á eyrum, þið standið ávallt gegn heilögum anda eins og feður ykkar. Hver var sá spámaður sem feður ykkar ofsóttu eigi? Þeir drápu [...]
Biblíulestur – 7. janúar – Lúk 6.12–19
En svo bar við um þessar mundir að Jesús fór til fjalls að biðjast fyrir og var alla nóttina á bæn til Guðs. Og er dagur rann kallaði hann til [...]