Biblíulestur – 18. febrúar – 1Mós 3.1–13
Höggormurinn var slóttugri en öll dýr merkurinnar sem Drottinn Guð hafði gert. Hann sagði við konuna: „Er það satt að Guð hafi sagt: Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum?“
Konan svaraði höggorminum: „Við megum eta af ávöxtum trjánna í aldingarðinum en um ávöxt trésins, sem stendur í miðjum aldingarðinum, sagði Guð: Af honum megið þið ekki eta og ekki snerta hann, ella munuð þið deyja.“ Þá sagði höggormurinn við konuna: „Sannið til, þið munuð ekki deyja. En Guð veit að um leið og þið etið af honum ljúkast augu ykkar upp og þið verðið eins og Guð og skynjið gott og illt.“
Þá sá konan að tréð var gott af að eta, fagurt á að líta og girnilegt til fróðleiks. Hún tók af ávexti þess og át og gaf einnig manni sínum, sem með henni var, og hann át. Þá lukust upp augu þeirra beggja og þeim varð ljóst að þau voru nakin. Þau saumuðu því saman fíkjuviðarblöð og gerðu sér mittisskýlur.
Þá heyrðu þau til Drottins Guðs sem gekk um í aldingarðinum í kvöldsvalanum og maðurinn og kona hans földu sig fyrir augliti Drottins milli trjánna í aldingarðinum. Drottinn Guð kallaði á manninn og sagði við hann: „Hvar ertu?“ Og hann svaraði: „Ég heyrði til þín í aldingarðinum og varð hræddur því að ég er nakinn, og ég faldi mig.“ Hann sagði: „Hver sagði þér að þú værir nakinn? Hefur þú etið af trénu sem ég bannaði þér að eta af?“ Maðurinn mælti: „Konan sem þú hefur sett mér við hlið, hún gaf mér af trénu og ég át.“ Þá sagði Drottinn Guð við konuna: „Hvað hefurðu gert?“ Konan svaraði: „Höggormurinn tældi mig og ég át.“
Biblíulestur – 18. janúar – Slm 90.1–17
Bæn guðsmannsins Móse. Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó [...]
Biblíulestur – 17. janúar – Jes 60.1–6
Statt upp, skín þú, því að ljós þitt kemur og dýrð Drottins rennur upp yfir þér. Myrkur grúfir yfir jörðinni og sorti yfir þjóðunum en Drottinn er runninn upp yfir [...]
Biblíulestur – 16. janúar – Jes 8.23–9.6
Engin björgun býðst þeim sem er ofurseldur algjörum sorta. Ekki skal myrkur vera í landinu sem fyrr var í nauðum statt. Fyrrum lét hann vansæmd koma yfir Sebúlonsland og Naftalíland [...]
Biblíulestur – 15. janúar – Lúk 3.10–20
Mannfjöldinn spurði hann: „Hvað eigum við þá að gera?“ En hann svaraði þeim: „Sá sem á tvo kyrtla gefi þeim er engan á og eins geri sá er matföng hefur.“ [...]
Biblíulestur – 14. janúar – Lúk 3.1–9
Á fimmtánda stjórnarári Tíberíusar keisara, þegar Pontíus Pílatus var landstjóri í Júdeu en Heródes fjórðungsstjóri í Galíleu, Filippus, bróðir hans, í Ítúreu og Trakónítishéraði og Lýsanías í Abílene, í æðstapreststíð [...]
Biblíulestur – 13. janúar – Matt 23.34–39
Þess vegna sendi ég til yðar spámenn, spekinga og fræðimenn. Suma þeirra munuð þér lífláta og krossfesta, aðra húðstrýkja í samkundum yðar og ofsækja borg úr borg. Þannig kemur yfir [...]