Daglegur lestur2025-02-09T12:28:07+00:00

Biblíulestur – 9. september – 2Kor 1.1–11

Páll, að Guðs vilja postuli Krists Jesú, og Tímóteus, bróðir okkar, heilsa söfnuði Guðs, sem er í Korintu, ásamt öllum heilögum, í gervallri Akkeu.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar sem hughreystir mig í sérhverri þrenging minni svo að ég geti hughreyst alla aðra í þrengingum þeirra á sama hátt og hann hughreystir mig. Eins og ég tek í ríkum mæli þátt í þjáningum Krists, þannig uppörvar Kristur mig einnig í ríkum mæli. En ef ég sæti þrengingum, þá er það til þess að þið öðlist kjark og frelsist og ef ég er vongóður, þá er það til þess að þið verðið vongóð og öðlist kjark og kraft til að standast þær þjáningar sem ég einnig líð. Ég ber fullt traust til ykkar því að ég veit að fyrst þið takið þátt í þjáningum mínum hljótið þið og að taka þátt í trúarvissu minni.
Ég vil ekki, bræður mínir og systur, að ykkur sé ókunnugt um þrenging þá sem ég varð fyrir í Asíu. Ég var aðþrengdur langt um megn fram svo að ég jafnvel örvænti um lífið. Já, mér sýndist sjálfum að ég hefði þegar fengið minn dauðadóm. Því að mér átti að lærast að treysta ekki sjálfum mér heldur Guði sem uppvekur hina dauðu. Úr slíkri dauðans hættu frelsaði hann mig og mun frelsa mig. Til hans hef ég sett von mína að hann muni enn frelsa mig. Þið getið einnig hjálpað til þess með því að biðja fyrir mér. Þá munu margir taka undir þakkir til Guðs fyrir það sem hann hefur veitt mér.

Fara efst