Daglegur lestur2025-11-23T00:01:48+00:00

Biblíulestur – 28. nóvember – 5Mós 33.1–11

Þannig blessaði guðsmaðurinn Móse Ísraelsmenn áður en hann dó:
Drottinn kom frá Sínaí,
hann lýsti þeim frá Seír,
ljómaði frá Paranfjöllum.
Hann steig fram úr flokki þúsunda heilagra,
á hægri hönd honum brann eldur lögmálsins.
Þú sem elskar þjóðirnar,
allir þeirra heilögu eru í hendi þinni.
Þeir hafa fallið þér til fóta,
rísa á fætur er þú skipar.
Móse setti oss lög
sem eru eign safnaðar Jakobs.
Jesjúrún fékk konung
þegar höfðingjar þjóðarinnar komu saman,
ættbálkar Ísraels sameinaðir.
Rúben skal lifa en ekki deyja út
þótt hann verði fámennur.
Þetta sagði hann um Júda:
Heyr, Drottinn, rödd Júda,
leiddu hann heim til þjóðar sinnar.
Hann barðist fyrir hana með höndum sínum,
hjálpa honum gegn fjandmönnum hans.
Um Leví sagði hann:
Túmmím þín hafa verið falin Leví
og úrím þín þeim sem þú treystir.
Þú reyndir hann hjá Mara,
sóttir hann til saka við Meríbavatn,
hann sem sagði um föður sinn og móður:
„Þau hef ég aldrei séð,“
og kannaðist ekki við bræður sína,
leit ekki við börnum sínum.
Því að Levítarnir héldu boð þitt
og hafa varðveitt sáttmála þinn.
Þeir kenna Jakobi fyrirmæli þín
og Ísrael lög þín.
Þeir fórna þér reykelsisilmi
og leggja alfórn á altari þitt.
Blessa þú, Drottinn, eignir hans
og megi þér þóknast verk hans.
Brjót þú lendar fjandmanna hans
og hatursmanna svo að þeir rísi ekki upp aftur.

Fara efst