Biblíulestur – 19. febrúar – 1Mós 3.14–24
Þá sagði Drottinn Guð við höggorminn:
Af því að þú gerðir þetta
skaltu vera bölvaður
meðal alls fénaðarins
og meðal allra dýra merkurinnar.
Á kviði þínum skaltu skríða
og mold eta
alla þína ævidaga.
Ég set fjandskap
milli þín og konunnar
og milli þíns niðja og hennar niðja.
Hann skal merja höfuð þitt
og þú skalt höggva hann í hælinn.
Við konuna sagði hann:
Mikla mun ég gera þjáningu þína
er þú verður barnshafandi.
Með þraut skaltu börn fæða,
samt skaltu hafa löngun til manns þíns
en hann skal drottna yfir þér.
Við Adam sagði hann:
Vegna þess að þú hlýddir röddu konu þinnar
og ást af trénu sem ég bannaði þér að eta af,
þá sé akurlendið bölvað þín vegna.
Með erfiði skaltu hafa viðurværi af því
alla þína ævidaga.
Þyrna og þistla skal landið gefa af sér
og þú skalt lifa á grösum merkurinnar.
Í sveita þíns andlitis skaltu brauðs þíns neyta
þar til þú hverfur aftur til jarðarinnar
því af henni ertu tekinn.
Því að mold ert þú
og til moldar skaltu aftur hverfa.
Adam nefndi konu sína Evu því að hún varð móðir allra sem lifa. Og Drottinn Guð gerði skinnkyrtla handa Adam og konu hans og lét þau klæðast þeim.
Og Drottinn Guð sagði: „Nú er maðurinn orðinn sem einn af oss fyrst hann ber skyn á gott og illt. Bara að hann rétti nú ekki út hönd sína, taki einnig af lífsins tré og eti og lifi eilíflega.“
Og Drottinn Guð lét manninn fara úr aldingarðinum Eden til þess að yrkja jörðina sem hann var tekinn af. Og hann rak manninn burt og setti kerúbana fyrir austan Eden og loga hins sveipanda sverðs til þess að gæta vegarins að lífsins tré.
Biblíulestur – 18. febrúar – 1Mós 3.1–13
Höggormurinn var slóttugri en öll dýr merkurinnar sem Drottinn Guð hafði gert. Hann sagði við konuna: „Er það satt að Guð hafi sagt: Þið megið ekki eta af neinu tré [...]
Biblíulestur – 17. febrúar – 1Mós 2.4–25
Á þeim degi er Drottinn Guð gerði himin og jörð var enginn runni merkurinnar til á jörðinni og engar jurtir spruttu því að Drottinn Guð hafði ekki enn látið rigna [...]
Biblíulestur – 16. febrúar – Matt 20.1–16
Jesús sagði þessa dæmisögu: „Líkt er um himnaríki og húsbónda einn sem gekk út árla morguns að ráða verkamenn í víngarð sinn. Hann samdi við verkamennina um denar í daglaun [...]
Biblíulestur – 15. febrúar – Slm 93.1–5
Drottinn er konungur, skrýddur hátign, Drottinn er skrýddur, gyrtur mætti. Heimurinn er stöðugur, haggast ekki. Hásæti þitt stendur stöðugt frá öndverðu, frá eilífð ert þú. Fljótin hófu upp, Drottinn, fljótin [...]
Biblíulestur – 14. febrúar – 1Mós 1.24–2.4
Þá sagði Guð: „Jörðin leiði fram lifandi skepnur, hverja eftir sinni tegund, búfé, skriðdýr og villidýr, hvert eftir sinni tegund.“ Og það varð svo. Guð gerði villidýrin, hvert eftir sinni [...]
Biblíulestur – 13. febrúar – 1Mós 1.1–23
Í upphafi skapaði Guð himin og jörð. Jörðin var þá auð og tóm. Myrkur grúfði yfir djúpinu en andi Guðs sveif yfir vötnunum. Þá sagði Guð: „Verði ljós.“ Og það [...]