Daglegur lestur2025-02-09T12:28:07+00:00

Biblíulestur – 14. nóvember – 5Mós 29.1–14

Móse kallaði saman allan Ísrael og sagði: Þið hafið sjálfir séð allt það sem Drottinn gerði fyrir augum ykkar í Egyptalandi gegn faraó, öllum þjónum hans og öllu ríki hans. Þú sást með eigin augum hinar miklu raunir, tákn og máttarverk. En allt fram á þennan dag hefur Drottinn ekki gefið ykkur hjarta til að skilja, augu til að sjá eða eyru til að heyra.
Ég leiddi ykkur um eyðimörkina í fjörutíu ár og hvorki slitnuðu klæðin utan af ykkur né ilskórnir af fótum ykkar. Þið hvorki átuð brauð né drukkuð vín eða áfengt öl til þess að þið mættuð skilja að ég er Drottinn, Guð ykkar.
Þegar þið komuð hingað héldu Síhon, konungur í Hesbon, og Óg, konungur í Basan, gegn okkur með ófriði en við sigruðum þá. Við tókum land þeirra og fengum það ættbálkum Rúbens, Gaðs og hálfum ættbálki Manasse að erfðahlut. Haldið því ákvæði þessa sáttmála og breytið eftir þeim til þess að ykkur lánist allt sem þið gerið. Í dag standið þið allir frammi fyrir Drottni, Guði ykkar, höfðingjar ættbálka ykkar, öldungar ykkar og ritarar, allir karlmenn í Ísrael, börn ykkar og konur og aðkomumennirnir sem eru í búðum þínum, bæði viðarhöggsmenn þínir og vatnsberar. Þú gengst hér með undir sáttmála Drottins, Guðs ykkar, og eiðinn sem Drottinn, Guð þinn, sver þér í dag. Hann staðfestir í dag að þú ert hans þjóð og hann þinn Guð eins og hann hefur heitið þér og hann sór feðrum þínum, Abraham, Ísak og Jakobi. En ég geri þennan sáttmála og legg eið að, ekki við ykkur eina heldur bæði við þá sem standa hér hjá okkur í dag frammi fyrir Drottni, Guði okkar, og við þá sem ekki eru hér hjá okkur í dag.

Biblíulestur – 8. nóvember – Slm 107.33–43

Hann gerir fljótin að eyðimörk og uppsprettur að þurrum lendum, frjósamt land að saltsléttu sakir illsku íbúanna. Hann gerir eyðimörk að vatnstjörnum og þurrlendið að uppsprettum, lætur hungraða setjast þar [...]

Fara efst