Biblíulestur – 7. október – 5Mós 21.10–23
Þegar þú heldur í hernað gegn fjandmönnum þínum og Drottinn, Guð þinn, selur þá þér í hendur og þú tekur fanga og sérð fríða konu á meðal fanganna, fellir hug til hennar og vilt taka hana þér fyrir konu, skaltu fara með hana heim til þín. Hún skal skera hár sitt og neglur og fara úr fötunum sem hún var í meðan hún var fangi. Hún á að vera heima hjá þér í heilan mánuð og syrgja föður sinn og móður. Eftir það mátt þú ganga inn til hennar og gerast eiginmaður hennar og hún eiginkona þín.
En geðjist hún þér ekki skalt þú gefa henni fullt frelsi. Þú skalt ekki selja hana fyrir fé og ekki fara með hana sem ambátt því að þú hefur spjallað hana.
Ef maður á tvær konur og hefur mætur á annarri en lætur sér fátt um hina og þær fæða honum syni, sú sem hann hefur mætur á og hin sem hann lætur sér fátt um, og frumburðurinn er sonur þeirrar sem hann lætur sér fátt um, þá má hann ekki koma fram við son konunnar sem hann hefur mætur á eins og hann væri frumburðurinn þegar hann skiptir arfi með sonum sínum. Hann má ekki taka hann fram yfir son konunnar sem hann lætur sér fátt um en er frumburðurinn. Hann skal heldur viðurkenna frumburðinn, son konunnar sem hann lætur sér fátt um, með því að fá honum tvöfaldan hlut af öllu sem hann á. Hann er frumgróði karlmennsku hans og honum ber frumburðarrétturinn.
Eigi maður þrjóskan son og ódælan sem hvorki vill hlýða föður sínum né móður og hlýðnast þeim ekki heldur þótt þau hirti hann, skulu faðir hans og móðir taka hann og færa hann fyrir öldunga borgarinnar á þingstaðinn í borgarhliðinu. Þá skulu þau segja við öldunga borgarinnar: „Þessi sonur okkar er þrjóskur og ódæll og hlýðir ekki áminningum okkar. Hann er bæði ónytjungur og svallari.“ Þá skulu allir karlmenn í borginni grýta hann til bana. Þú skalt uppræta hið illa úr þjóð þinni. Allur Ísrael skal frétta þetta svo að þeir óttist.
Fremji maður glæp sem dauðarefsing liggur við og sé líflátinn og þú hengir hann á tré má líkið ekki vera á staurnum náttlangt. Þú verður að grafa hann samdægurs því að sá sem er hengdur er bölvaður af Guði.
Þú mátt ekki saurga land þitt sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér að erfðahlut.
Biblíulestur – 6. október – 5Mós 20.15–21.9
Þannig skaltu fara með allar þær borgir sem eru mjög fjarlægar þér og eru ekki meðal þeirra borga sem þjóðirnar hér ráða yfir. En þú skalt ekki láta neitt, sem [...]
Biblíulestur – 5. október – Lúk 7.11–17
Skömmu síðar bar svo við að Jesús hélt til borgar sem heitir Nain og lærisveinar hans fóru með honum og mikill mannfjöldi. Þegar hann nálgaðist borgarhliðið þá var verið að [...]
Biblíulestur – 4. október – Slm 106.24–39
Þeir fyrirlitu hið unaðslega land og treystu ekki orðum hans, mögluðu í tjöldum sínum og hlýddu ekki á boð Drottins. Þá hóf hann hönd sína gegn þeim til að fella [...]
Biblíulestur – 3. október – 5Mós 20.1–14
Þegar þú ferð í hernað gegn fjandmönnum þínum og sérð hesta, hervagna og her sem er fjölmennari en þinn skaltu ekki óttast þá því að Drottinn, Guð þinn, er með [...]
Biblíulestur – 2. október – 2Kor 13.1–13
Þetta er nú í þriðja sinn sem ég kem til ykkar því að „aðeins skal framburður gilda að tvö eða þrjú vitni beri“. Það sem ég sagði ykkur við aðra [...]
Biblíulestur – 1. október – 2Kor 12.11–21
Ég hef hagað mér eins og heimskingi. Þið hafið neytt mig til þess. Það voruð þið sem áttuð að mæla með mér. Því að í engu stóð ég hinum stórmiklu [...]