Biblíudagurinn er haldinn hátíðlegur í mörgum kirkjum sunnudaginn 12. febrúar 2023. Á Biblíudaginn er mikilvægi Biblíunnar í forgrunni helgihaldsins, enda er útgáfa og útbreiðsla Biblíunnar meginstoð í allri kristinni boðun. Þá er óhætt að fullyrða að íslensk menning sé samofin sagnaheimi Biblíunnar allt frá upphafi byggðar á Íslandi. Biblíudagurinn á sinn fasta stað í kirkjuárinu og er haldinn annan sunnudag í níuviknaföstu (lt. Sexagesimae).

Útvarpsguðsþjónustan á Biblíudaginn verður frá Kópavogskirkju, þar sem formaður framkvæmdanefndar Biblíufélagsins, sr. Grétar Halldór Gunnarsson, mun þjóna fyrir altari og prédika. Organisti verður Lenka Mátéová, kór Kópavogskirkju syngur og Anna María Hákonardóttir les ritningarlestra.

Í orði Guðs er aflið sterka falið,
því orði sem er skráð í lífsins bók,
gleði þín og sorg, gömul eða ný,
geislar sólarinnar, dimmust næturský
til að blómgist blessað líf á jörð.

Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson / Sb. 528
—-

Á Biblíudaginn hvetjum við einstaklinga og kirkjur til að styðja við prentun á Biblíum í Kína, en peningurinn rennur að mestu til kaupa á pappír fyrir Biblíur, sem verður dreift til innanlandsnotkunar í Kína.

Ef þú vilt styðja við það verkefni er hægt að leggja inn á reikning Biblíufélagsins:

Reikningur 0101 – 26 – 3555 / kt. 620169 – 7739