Í byrjun næsta árs mun Hið íslenska biblíufélag stíga nýtt og mikilvægt skref með því að gefa út íslenskt barnabiblíuapp fyrir snjalltæki í samvinnu við YouVersion í Bandaríkjunum.
Biblíuappið er gagnvirkt þar sem börn heyra Guðjón Davíð Karlsson (Góa) lesa biblíusögurnar á íslensku. Söguslóðirnar lifna við í litríkum mynd- og hljóðheimi beint í símanum þínum eða spjaldtölvu. Spennandi leikir og þrautir fylgja jafnframt sögunum.
Síðastliðið ár hefur góður hópur sjálfboðaliða undirbúið verkefnið sem nú er á lokametrunum. Bakhjarlar Biblíunnar hafa þegar lagt 1 milljón króna í verkefnið, en til að ljúka fjármögnun verður jólasöfnun Biblíufélagsins 2021 tvíþætt þetta árið:
  1. Annars vegar er safnað fyrir íslenska barnabiblíuappinu.
  2. Hins vegar verður safnað fyrir uppbyggingu Biblíufélags í einu af fyrrum lýðveldum Sovétríkjanna. Um er að ræða nýstofnað Biblíufélag í landi þar sem starfsemi Biblíufélagsins er lögleg en mjög illa séð af yfirvöldum. Söfnunin er í samstarfi við Sameinuðu biblíufélögin (United Bible Societies), en af öryggisástæðum er ekki hægt að gefa upp hvert landið er sem safnað er fyrir.
Við vonum að þú getir lagt okkur lið í jólasöfnuninni og þannig stutt annað eða bæði af þessum tveimur mikilvægu verkefnum, hérlendis og erlendis.