Aðalfundur Hins íslenska biblíufélags var haldinn í Lindakirkju fimmtudaginn 28. maí síðastliðinn. Á fundinum var farið yfir verkefni liðins starfsárs. Mikil ánægja ríkti á fundinum, enda unnið að mörgum spennandi verkefnum á liðnu ári og mörg fleiri verkefni í deiglunni.

Séra Grétar Halldór Gunnarsson formaður framkvæmdanefndar flutti skýrslu stjórnar þar sem m.a. kom fram að:

Á liðnu starfsári hefur Hið íslenska Biblíufélag lagt áherslu á tvennt. Annars vegar hefur Biblíufélagið lagt áherslu á að gera Biblíuna aðgengilega á nýjum miðlum með góðum árangri. Hins vegar hefur félagið undirbúið mikla sókn í að gera félagið fjárhagslega sjálfstætt og treysta fjárhagslegar undirstöður þess. Þannig gerði Biblíufélagið hljóðritun Nýja testamentisins aðgengilega á Biblían.is, Biblíuappi YouVersion og á Storytel. Einnig voru Davíðssálmarnir hljóðritaðir og er um þessar mundir verið að leggja lokahönd á frágang þeirra. Þá opnaði Biblíufélagið Instagram síðu þar sem ritningarvers og annað efni birtist daglega og Youtube síðu þar sem ýmislegt efni frá Biblíufélaginu er gert aðgengilegt svo sem falleg myndgerð við alla kafla Markúsarguðspjalls.

Hægt er að nálgast skýrslu stjórnar í heild á slóðinni https://biblian.is/2020/06/01/skyrsla-stjornar-hins-islenska-bibliufelags-2019-2020/.

Séra Guðni Már Harðarsson fór yfir reikninga félagsins, en mikill viðsnúningur hefur orðið á fjárhag þess á liðnum árum og gat Guðni Már þess sérstaklega að félagið hafi á liðnu ári staðið við fjárhagslegar skuldbindingar sínar gagnvart Sameinuðu biblíufélögunum, en á undanförnum árum hafa Biblíufélag hinna Norðurlandanna, sér í lagi Noregs, tekið að sér að greiða framlag Íslands.

Stjórn Hins íslenska biblíufélags skipa eftir fundinn:

Forseti félagsins

Frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands

Önnur í stjórn

  • Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir, lögfræðingur
  • Fjalar Freyr Einarsson, kennari, aga- og uppeldisráðgjafi
  • Grétar Halldór Gunnarsson, prestur
  • Guðni Már Harðarson, prestur
  • Hrönn Svansdóttir, framkvæmdastjóri
  • Irma Sjöfn Óskarsdóttir, prestur
  • Kristján Þór Gunnarsson, framkvæmdastjóri
  • Sveinn Valgeirsson, prestur

 


Ljósmynd: Stjórn Hins íslenska biblíufélags. Á myndina vantar Svein Valgeirsson og Irmu Sjöfn Óskarsdóttur.