Aðalfundur 2019
Aðalfundur Hins íslenska Biblíufélags var haldinn þriðjudaginn 24. apríl 2019 kl. 12.00 í Neskirkju. Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir var kosin fundarstjóri en sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir ritari fundar. Á aðalfundi luku Rúnar Vilhjálmsson og Guðni Einarsson stjórnarstörfum sínum eftir margra ára þjónustu í þágu Biblíufélagsins. Ný inn í stjórn komu Fjalar Freyr Einarsson (til tveggja ára) og Hrönn Svansdóttir (til fjögurra ára). Á fyrsta fundi stjórnar voru kosin í framkvæmdanefnd: Grétar Halldór Gunnarsson, varaforseti, Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir, ritari og Guðni Már Harðarson, gjaldkeri. Stjórnarmenn eru: Frú Agnes M. Sigurðardóttir, Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir, Fjalar Freyr Einarsson, sr. Guðni Már Harðarson, sr. Grétar Halldór Gunnarsson, Hrönn Svansdóttir, sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir, Kristján Þór Gunnarsson og sr. Sveinn Valgeirsson.
Forseti félagsins er biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir, í samræmi við lög félagsins. Verkefnastjórar eru Halldór Elías Guðmundsson og Einar Aron Fjalarsson.
Aðeins fimm stjórnarfundir voru haldnir á starfsárinu en reynt var að halda þeim í lágmarki eins og fyrri stjórn lagði áherslu á en framkvæmdanefnd stýrði starfinu á milli stjórnafunda. Stjórn Biblíufélagsins og samstarfsmenn hennar hafa engu að síður látið hendur standa fram úr ermum eins og ársskýrslan sýnir.
Stóra myndin
Á liðnu starfsári hefur Hið íslenska Biblíufélag lagt áherslu á tvennt. Annars vegar hefur Biblíufélagið lagt áherslu á að gera Biblíuna aðgengilega á nýjum miðlum með góðum árangri. Hins vegar hefur félagið undirbúið mikla sókn í að gera félagið fjárhagslega sjálfstætt og treysta fjárhagslegar undirstöður þess. Þannig gerði Biblíufélagið hljóðritun Nýja testamentisins aðgengilega á Biblían.is, Biblíuappi YouVersion og á Storytel. Einnig voru Davíðssálmarnir hljóðritaðir og er um þessar mundir verið að leggja lokahönd á frágang þeirra. Þá opnaði Biblíufélagið Instagram síðu þar sem ritningarvers og annað efni birtist daglega og Youtube síðu þar sem ýmislegt efni frá Biblíufélaginu er gert aðgengilegt svo sem falleg myndgerð við alla kafla Markúsarguðspjalls.
Aðgerðir til að stuðla að fjárhagslegum markmiðum félagsins hafa aðallega verið með þrennu lagi. Í fyrsta lagi var sett upp kerfi sem heldur utan um styrktaraðila okkar og gerir okkur kleift að fylgjast með og vera í samskiptum við þá. Í öðru lagi fékk Biblíufélagið Þorleif Einarsson til að leikstýra og útbúa auglýsingar fyrir sjónvarp, útvarp og samfélagsmiðla. Inntak augýsinganna var að gera grein fyrir sókn Biblíufélagsins og hvetja fólk til að styðja við það. Í þriðja lagi var ráðinn reyndur aðili til að hringja í alla félagsmenn og bjóða þeim að gerast bakhjarlar félagsins fyrir 1000 krónur eða meira á mánuði. Þegar þetta er ritað hafa þega 232, eða meira en helmingur þeirra sem hafa náðst hefur í, gerst bakhjarlar fyrir 1000 krónur á mánuði eða meira
Hljóðritun Nýja testamentisins
Hljóðritun Nýja testamentisins var að mestu lokið þegar aðalfundur HÍB fór fram í apríl árið 2019. Í september 2019 var hljóðritunin gerð aðgengileg á Biblían.is og á Biblíuappi Youversion. Hljóðritunin var gerð aðgengileg á Storytel í lok síðasta árs. Fann Biblíufélagið fyrir miklu þakklæti frá fólki sem nú getur hlustað á Guðs orð hvar sem er og hvenær sem er. Skiptir þetta miklu máli í að auka lestur ritningarinnar og ekki síður að auka aðgengi þeirra sem eiga erfitt með lestur vegna aldurs, lesblindu eða annarra lestrarörðugleika og að fá einfaldað og þröskuldalaust aðgengi að textanum lesnum. Birtust víða umfjallanir um hljóðritunina en þar að auki var forsíðufrétt B+ um þessa mikilvægu framför.
Markúsarguðspjallsmyndband – Hliðarafurð hljóðritunar NT
Ein af hliðarafurðum hljóðritunar Nýja testamentisins var myndgerð við lestur Markúsarguðspjalls sem var útbúin af Faith Comes by Hearing. Einar Aron hefur haft milligöngu um að ljúka því verkefni. Myndgerðin getur gert hlustunina ríkari og gæti hentað skjákynslóðinni vel og gæti einnig nýst í kirkjulegu starfi.
Hljóðritun Davíðssálmanna
Í kjölfar hljóðritunar Nýja testamentisins gaf Hallgrímssókn Biblíufélaginu 250 þúsund króna gjöf í minningu sr. Sigurðar Pálssonar, sem féll frá árið 2019 til að hefja mætti hljóðritun á Davíðssálmunum sem Sigurður hafði í miklum metum. Sigurður var framkvæmdastjóri félagsins áður en hann gerðist prestur og sat svo í stjórn félagsins og var kjörinn heiðursfélagi þess árið 2015. Margir aðrir einstaklingar studdu sömuleiðis við framtakið. Varð það hvati þess að gengið var til samninga við hljóðbók.is um að hljóðrita þá og var Guðjón Davíð Karlsson fenginn til að ljá verkinu rödd sína. Var upptökum sálmanna lokið að fullu í mars 2020 og er nú undirbúningur í gangi til að gera megi þá aðgengilega á biblían.is og Biblíuappi Youversion.
Starfsmannamál
Framkvæmdastjóri HÍB, Guðmundur Brynjólfsson, veiktist snemma hausts 2019 og var frá vinnu fram að jólum. Þurfti hann, að læknisráði, að koma hægt til starfa á nýjan leik. Var sú ákvörðun tekin af stjórn félagsins að breyta starfsmannamálum Biblíufélagsins á þann veg að ráða einstaklinga til sérstakra verkefna, enda þarf Biblíufélagið mikla sérhæfða þjónustu. Þessi tilhögun hentaði fráfarandi framkvæmdastjóra vel og lauk hann störfum 1. apríl 2020 eftir að hafa unnið uppsagnarfrest sinn. Frá síðasta aðalfundi hefur Hið íslenska Biblíufélag ráðið nokkra einstaklinga í sérstök verkefni. Pétur Ragnarsson útbjó félaga og styrktaraðilakerfi, Auður Gylfadóttir var ráðin til úthringinga að safna bakhjörlum , Halldór Elías til að sjá um heimasíðu og önnur tæknimál, Einar Aron til að sjá um ýmsa hluti tengda Facebook og Biblíuuappinu, Þorleifur Einarsson til að sjá um myndband, hljóðbók.is til að sjá um upptökur, Guðjón Davíð Karlsson og Kristján Franklin Magnús til að sjá um lestur á Biblíutextum, Þorgils Hlyn Þorbergsson til að skrifa greinar fyrir heimasíðu, Brynjólf Ólason til að sjá um uppsetningu á prentefni og Emil Hreiðar Björnsson til að sjá um valda grafíska hönnun, svo það helsta sé nefnt. Nú síðast var ýmsum verkefnum bætt á Halldór Elías sem sinnir nú meðal annars erlendum samskiptum.
Vefsíða
Vefsvæði Biblíufélagsins, biblian.is, er í stöðugri mótun undir stjórn Halldórs Elíasar. Á árinu var tekið í gagnið vandað kerfi fyrir fjársafnanir með kreditkortum, sett var upp fræðsluefni um Biblíuna á sérstökum fræðsluvef og unnið að framsetningu á hljóðbók Nýja testamentisins svo helstu verkefni séu nefnd. Vefsíðan fékk ríflega 22 þúsund heimsóknargesti á liðnu ári og kom hver og einn að jafnaði tæplega fjórum sinnum í heimsókn. Það gerir að jafnaði um 230 heimsóknir á dag sem er veruleg aukning frá fyrra ári en þá voru að jafnaði 100 heimsóknir á dag. Engin breyting hefur þó orðið á notkun á Biblíuleitarvélinni milli ára sem er notuð daglega fyrir 60-70 leitir.
Í vor hafa verið gerðar nokkrar breytingar á innri virkni vefsvæðisins til að auka hraða og öryggi. Framundan er frekari þróun á því sviði. Þá er unnið að einfaldari og aðgengilegri framsetningu á hljóðbók Biblíunnar á vefsvæðinu ásamt því sem unnið er að endurhönnun á fræðsluvefnum til að hann nýtist betur en nú er.
Instagram og Youtube
Á vordögum setti Halldór Elías upp Instagram reikning og Youtube síðu fyrir Biblíufélagið. Er hvort tveggja mikilvægur liður í að koma Biblíunni og Biblíufélaginu á framfæri á nýjum miðlum. Á Instagram birtast reglulega myndskreytt Biblíuvers. Á Youtube er safnað saman ýmsu efni frá Biblíufélaginu sem gæti komið að gagni. Þar er t.d. að finna auglýsingar Biblíufélags sem sýndar voru í sjónvarpi og auk þess myndgerðir fyrir alla kafla Markúsarguðspjalls.
Fylgjendum fésbókarsíðu félagsins hefur fjölgað umtalsvert á liðnu starfsári. 382 nýir fylgjendur hafa bæst í hópinn sem þýðir að rúmlega einn fylgjandi bættist við á degi hverjum. Færslur birtast dag hvern á síðunni, yfirleitt myndskreytt ritningarvers, en einnig stundum fréttir og aðrar upplýsingar. Að jafnaði sjá 1094 einstaklingar hverja færslu og hvert innlegg fær að jafnaði 75 viðbrögð. Á tímabilinu tók Einar Aron upp á þeirri nýlundu að vera með leiki þar sem heimsóknargestir síðunnar gátu sett inn uppáhalds ritningarversið sitt og unnið í staðinn veglegn bókavinning. Voru slíkir leikir í byrjun desember, á Þorláksmessu og sumardaginn fyrsta.
Snjallforrit
Í upphafi árs 2018 var íslenska Biblíuþýðingin frá 2007 gerð aðgengileg í snjallforrit Youversion. Síðan þá hafa meira en 15.000 notendur sótt íslenska Biblíutextann. Á árinu 2019 bættust við 2.100 nýir íslenskir notendur, að jafnaði um 6 á dag. Samanlagt lásu íslenskir notendur 48.000 kafla í Biblíunni árið 2019. Mikil aukning hefur verið á fjölda Biblíuversa sem deilt hefur verið á samfélagsmiðlum. Frá 1. apríl 2019 til 31. mars 2020 hefur 4385 Biblíuversum verið deilt á samfélagsmiðlum miðað við 2946 versum sem deilt var á sama tímabili árið á undan. Sýnileiki Biblíunnar á samfélagsmiðlum heldur áfram að aukast við þetta. Nú er hægt að hlusta á Nýja testamentið á Biblíuappi Youversion en Einar Aron Fjalarson sá til þess, með óeigingjarnri vinnu, að búið er að merkja öll versin inn svo að nú fylgir lesstikan hljóðrituninni, notendum til mikils hægðarauka. Íslenska Biblíuþýðingin frá árinu 1981 var þá einnig gerð aðgengileg í biblíuappinu og geta áhugasamir nú borið saman íslenskar þýðingar í appinu.
B+
Skömmu áður en B+ átti að koma út veiktist framkvæmdastjórinn og frestaði það útgáfunni. Áður hafði verið ákveðið að blaðið skyldi koma út snemma að hausti en þess í stað kom það út í desembermánuði. Var mikið af góðu efni í blaðinu og fjallaði forsíðufréttin um áðurnefnda hljóðritun ritninganna.
Kynningarmyndband og auglýsingar Biblíufélagsins
Hugmynd kom frá Kristjáni Þór Gunnarssyni, stjórnarmanni, um að útbúa kynningarmyndband fyrir Biblíufélagið sem mætti nota í kynningum í kirkjum og söfnuðum. Var það samþykkt og eftir forvinnu var Þorleifur Einarsson ráðinn til verksins. Í vinnunni sem fram fór í kjölfarið kom í ljós að myndbandið hefði meiri kynningarmöguleika en upphaflega hafði verið gert ráð fyrir. Kynningarmyndbandið gæti orðið flaggskip auglýsingaátaks sem væri ætlað að minna á mikilvægi Biblíunnar, vekja athygli á sókn hennar inn á nýja miðla og bjóða fólki að gerast bakhjarlar Biblíunnar á Íslandi með því að styðja við Biblíufélagið. Auglýsingin minnir þannig á upprunalegt markmið Biblíufélagsins, bendir á tæknibyltingar síðustu ára, en sýnir á sama tíma hvernig Biblíufélagið mætir áskorunum nýrra tíma um leið og hún býður fólki að taka þátt. Hafa margir lýst yfir ánægju með auglýsinguna og er stjórn Biblíufélagsins afar stolt af henni. Auglýsingin var frumsýnd á Facebook og kostuð þar svo hún birtist í tölvum og símum fjölda Íslendinga sem fóru inn á samfélagsmiðilinn. Þá voru kostaðar auglýsingar á RÚV á bestu tímum á páskadag, hjá Sjónvarpi Símans og hjá sjónvarpsstöðinni Hringbraut á dögunum og vikunum eftir páska. Hægt var að fá gífurlega góð auglýsingatilboð á tímum kórónaveirunnar enda voru sennilega færri fyrirtæki en ella að kaupa auglýsingar og á sama tíma var áhorf geysilega mikið í samkomubanninu. Daginn eftir frumsýningu myndbandsins á RÚV var haft samband frá Menntamálaráðuneytinu þar sem vilji var þar fyrir að styðja verkefni Biblíufélagsins um kr. 300.000. Þá voru einnig gerðar útvarpsauglýsingar sem minntu á Biblíufélagið, á hljóðritun Nýja testamentisins og hvar hún væri nú aðgengileg. Einnig var keypt auglýsing fyrir prentútgáfu Biblíunnar sem birtist á baksíðu blaðs KFUM sem var borið út á öll heimili á landinu. Það er því vægt til að orða tekið þegar sagt er að Biblíufélagið og Biblían hafi verið áberandi sem aldrei fyrr.
Nýtt félaga og styrkaraðilakerfi
Áður en Norðmenn hættu að styðja Biblíufélagið fjárhagslega þá veittu þeir okkur góð ráð. Eitt af því helsta var að við þyrftum að útbúa gott kerfi utan um félagsmenn og stuðningsaðila. Slíkt kerfi myndi gera okkur mögulegt að fylgjast með hverjir væru að greiða félagsgjöld og hverjir væru að styrkja. Það myndi halda utan um tengiupplýsingar og gera okkur fært að vera í sambandi við stuðningsaðila okkar og þakka þeim þegar þeir gefa til starfs Biblíufélagsins. Fenginn var til verksins Pétur Ragnarsson sem er vanur slíkri vinnu. Kerfið þegar komið í notkun og reynist vel.
Bakhjarlar
Í beinu sambandi við kynningarherferðina og þessu nýja kerfi var ákveðið að útbúa nýja leið til að styðja við Biblíufélagið umfram félagsgjöld. Sú leið kallast „Bakhjarlar Biblíufélagsins“. Þar getur fólk skráð sig til að greiða 1000 krónur eða meira á mánuði til Biblíufélagsins til að styðja við verkefni þess. Auður Gylfadóttir var, sem áður sagði, ráðin til verkefnisins en hún er vön slíkri vinnu frá SOS barnaþorpum. Hún hefur þegar náð í 432 og af þeim hafa 232, eða meira en helmingur þeirra sem hafa svarað, gerst bakhjarlar fyrir 1000 krónur á mánuði eða meira. Þýðir það 2.784.000 krónur á hverju ári og munar um minna fyrir Biblíufélagið. Þá má ekki gleyma að enn á eftir að ná í marga á félagalista félagsins þannig að horfur eru á enn betri árangri.
Fjárhagur Bibíufélagsins
Á liðnu starfsári var Biblíufélagið með starfsmann í hálfu starfi auk þess að ráða einstaklinga til sérstakra verkefna. Þá var lagt í mikilvægan kostnað sem stjórn Biblíufélagsins sér sem fjárfestingu til framtíðar. Myndbandið, auglýsingarnar, nýja stuðningsmanna- og félagakerfið, auk annarra spennandi verkefna við að koma Orðinu á framfæri á nýjum miðlum kosta sitt. Mun ávöxtun þeirra fjárfestinga koma betur fram á næstu árum. Þrátt fyrir þennan óvenjulega og mikla kostnað er ársreikningur Biblíufélagsins réttum megin við núllið á liðnu starfsári og vel rúmlega það, eins og ársreikningurinn vitnar um. Þar hjálpar ekki hvað síst að eignasafnið okkar hefur haft góða ávöxtun. En auðvitað má ekki gleyma þeim fjölmörgu einstaklingum, kirkjum og félögum sem lagt hafa Biblíufélaginu lið.
Félagsgjöld
Góðar heimtur voru af félagsgjöldum þetta árið og sú ákvörðun aðalfundar 2019 að hækka félagsgjaldið úr 2000 krónum í 3000 krónur minnkaði ekki hlutfall félagsmanna sem greiða félagsgjaldið heldur fjölgaði þeim og skilaði félaginu rúmlega 1,3 milljónum meira í tekjur en árið á undan.
Safnanir
Farið var í jólasöfnun og páskasöfnun. Jólasöfnunin var fyrir Biblíum til Kína en páskasöfnunin var fyrir hljóðritun Davíðssálmana. Í jólasöfnuninni safnaðist tæplega milljón og um 250 þúsund í páskasöfnun fyrir hljóðritun Davíðssálma. Sú leið að leggja niður póstsendingar með greiðsluseðlum um páska sparaði ríflega 600 þúsund krónur í útgjöldum.
Biblíudagurinn
Biblíudagurinn var 16. febrúar. Þann dag var útvarpsmessa frá Grafarvogskirkju þar sem formaður framkvæmdanefndar HÍB messaði og notaði tækifærið til að segja frá Biblíufélaginu, erindi þess, starfi og bakhjarlasöfnun.
Lokaorð
Biblíufélagið er á skemmtilegu skriði. Það er að nýta sér mörg tækifæri og mæta ýmsum áskorunum sem samfélagsbreytingar bjóða upp á og krefjast. Guðs orð og Biblíufélagið er nú sýnilegt með nýjum hætti, í krafti samfélagsmiðla, snjallsíma, auglýsingaherferðar og úthringiátaks. Á sama tíma styrkist fjárhagur félagsins, þrátt fyrir miklar fjárfestingar í áðurnefndum sóknarátökum. Og víst er að framtíðarvon er til þess að sá hagur vænkist enn frekar á misserunum framundan. Hið íslenska Biblíufélag er kannski elsta félag landsins en með því er ferskur kraftur sem Guð gefur og nýjar aðstæður hafa kallað fram.
Fyrir hönd stjórnar Hins íslenska Biblíufélags
Grétar Halldór Gunnarsson
Ljósmynd: Grétar Halldór Gunnarsson flytur skýrslu stjórnar á aðalfundi Biblíufélagsins 28. maí 2020.