Bakkabræður ætluðu sér að bera ljósið inn í bæinn í húfum sínum. Það gekk ekki sem skyldi. En það má nú samt færa ljósið til með merkilegum hætti án þess að nota raflýsingu, olíulampa eða gera tilraunir með húfum.

Það er hægt að færa fólki ljósið með því að gera því kleift að lesa Biblíuna á því tungumáli sem er þess eigið tungumál. Stórkostlegast er að færa því fólki ljósið í fyrsta sinn – eða nýja útgáfu af ljósinu, færa því eitthvað sem lýsir því enn betur en áður.

Nú ráðumst við í páskasöfnun og sú söfnun miðar að því að færa fólki í Eþíópíu biblíuna. Í því stóra landi og fjölmenna er mörg tungumál að finna enda býr þar margt fólk og margir þjóðflokkar. Og nú langar hadiyya-,kambatta– og konsofólkið að fá nýjar biblíuþýðingar. Hjálpum þeim. Hjálpum Biblíufélagi Eþíópíu að vinna að þessu göfuga markmiði.

Hvers vegna Eþíópía?

Jú, í þetta sinn eru ýmis verkefni í gangi hjá Alþjóðasamtökum biblíufélaga (United Bible Socities) en við völdum að styrkja þetta verkefni í Eþíópíu því að þangað höfum við haft margskonar tengingar, Íslendingar. Þar höfum við stundað kristniboð í áratugi. Þar unnu íslenskir kristniboðar brautryðjendastarf svo eftir var tekið. Þangað höfum oft rétt hjálparhönd.

Og nú er komið að því að við færum þeim ljós ljósanna. Biblíuna. Það er páskasöfnunin okkar í ár. Viltu vera með í því?

 

Hægt er að vera með hérna á heimasíðunni:

 

Og svo má líka leggja beint inn með gamla laginu:

  • Kennitala: 620169-7739
  • Bankareikningur: 0101-26-003555. 
  • Merkt: Konso

 

Kær kveðja og Guðs blessun,

Guðmundur Brynjólfsson, framkv.stj. HÍB