1Þá mælti Bíleam við Balak: Gjör þú mér hér sjö ölturu og fá mér hingað sjö uxa og sjö hrúta.2Og Balak gjörði sem Bíleam sagði, og Balak og Bíleam fórnuðu uxa og hrút á altari hverju.3Bíleam sagði við Balak: Statt þú hér hjá brennifórn þinni, ég ætla að ganga burt. Vera má að Drottinn kunni að koma til móts við mig, en hvað sem hann birtir mér, skal ég tjá þér. Fór hann þá upp á skóglausa hæð.4Og Guð kom til móts við Bíleam, og Bíleam sagði við hann: Ég hefi búið sjö ölturu og fórnað uxa og hrút á hverju altari.5Drottinn lagði þá Bíleam orð í munn og sagði: Far þú aftur til Balaks, og mæl svo sem ég segi þér.6Fór hann þá aftur til hans. Og sjá, hann stóð hjá brennifórn sinni og allir höfðingjar Móabs með honum.7Flutti hann þá kvæði sitt og mælti: Til Mesópótamíu lét Balak sækja mig, konungur Móabs, til hinna austlægu fjalla. Kom þú, bölva Jakob fyrir mig, kom þú, formæl Ísrael!8Hvernig má ég biðja bölbæna þeim, er Guð eigi biður bölbæna, og hvernig má ég formæla þeim, er Drottinn eigi formælir?9Af fjallstindinum sé ég hann, og af hæðunum lít ég hann. Hann er þjóðflokkur, sem býr einn sér og telur sig eigi meðal hinna þjóðanna.10Hver mun telja mega duft Jakobs, og hver mun fá tölu komið á fjöld Ísraels? Deyi önd mín dauða réttlátra og verði endalok mín sem þeirra.11Þá sagði Balak við Bíleam: Hvað hefir þú gjört mér? Ég fékk þig til þess að biðja óvinum mínum bölbæna, og sjá, þú hefir margblessað þá.12En Bíleam svaraði og sagði: Hvort hlýt ég eigi að mæla það eitt, er Drottinn leggur mér í munn?13Þá sagði Balak við Bíleam: Kom með mér á annan stað, þar er þú mátt sjá þá, þó munt þú aðeins fá séð ysta hluta þeirra, alla munt þú eigi sjá þá, og bið þeim þar bölbæna fyrir mig.14Og hann tók hann með sér upp á Njósnarvöll, upp á Pisgatind, og reisti þar sjö ölturu og fórnaði.15Þá mælti Bíleam við Balak: Statt þú hér hjá brennifórn þinni, meðan ég fer þangað til móts við Guð.16Drottinn kom til móts við Bíleam og lagði honum orð í munn og sagði: Far þú aftur til Balaks, og mæl svo sem ég segi þér.17Gekk hann þá til hans, og sjá, hann stóð hjá brennifórn sinni og höfðingjar Móabs með honum. Og Balak mælti við hann: Hvað sagði Drottinn?18Flutti Bíleam þá kvæði sitt og mælti: Rís þú upp, Balak, og hlýð á! Hlusta þú á mig, Sippórs sonur!19Guð er ekki maður, að hann ljúgi, né sonur manns, að hann sjái sig um hönd. Skyldi hann segja nokkuð og gjöra það eigi, tala nokkuð og efna það eigi?20Sjá, að blessa var mér falið, fyrir því blessa ég og tek það eigi aftur.21Eigi sést óheill með Jakob, né heldur má mein líta með Ísrael. Drottinn, Guð hans, er með honum, og konungsfögnuður er hjá honum.22Sá Guð, sem leiddi þá af Egyptalandi, er honum sem horn vísundarins.23Því að eigi er galdur með Jakob né fjölkynngi með Ísrael. Nú verður það eitt sagt um Jakob og Ísrael: Hversu mikla hluti hefir Guð gjört!24Hann er þjóðflokkur, sem rís upp eins og ljónynja og reisir sig sem ljón, hann leggst ekki niður fyrr en hann hefir etið bráð og drukkið blóð veginna manna.25Þá sagði Balak við Bíleam: Þú skalt hvorki biðja honum bölbæna né blessa hann.26En Bíleam svaraði og sagði við Balak: Hefi ég ekki sagt þér: Allt það, sem Drottinn býður, það mun ég gjöra?27Þá mælti Balak við Bíleam: Kom þú, ég vil fara með þig á annan stað. Vera má að Guði þóknist, að þú biðjir þeim þar bölbæna fyrir mig.28Tók Balak þá Bíleam með sér upp á Peórtind, sem mænir yfir öræfin.29Þá mælti Bíleam við Balak: Gjör þú mér hér sjö ölturu og fá mér hingað sjö uxa og sjö hrúta.30Og Balak gjörði sem Bíleam mælti og fórnaði uxa og hrút á altari hverju.

23.9 Ísraelsþjóðin býr ein 2Mós 34.11-17; 5Mós 7.1-6; 33.28
23.10 Sandkorn Jakobs 1Mós 13.16; 2Kro 1.9
23.19 Guð skiptir ekki um skoðun 1Sam 15.29; Mal 3.6; Róm 11.29; sbr Slm 77.11
23.21 Konungur konunganna hylltur Jes 33.22; Slm 24; 93-100
23.22 Horn sem villinaut 4Mós 24.8; sbr 5Mós 33.17; Slm 92.11
23.24 Sem ljón 4Mós 24.9; 1Mós 49.9; 5Mós 33.20