Hér á vef Biblíufélagsins eru nú aðgengilegar fjórar biblíuþýðingar á íslensku. Þær eru:
- Guðbrandsbiblía, útgáfuár 1584.
- Viðeyjarbiblía, útgáfuár 1841.
- Þýðingin 1981, útgáfuár 1981.
- Biblía 21. aldar, útgáfuár 2007.
Nánar um biblíuþýðingarnar á vefnum
Guðbrandsbiblía – 1584
Prentun Guðbrandsbiblíu lauk 21. apríl 1584. Útgáfudagur var 6. júní 1584, en bókin mun þó ekki hafa farið að koma úr bandi fyrr en árið 1585. Þýðingin er kennd við Guðbrand Þorláksson (1541/1542–1627) sem þá var biskup á Hólum í Hjaltadal.
Guðbrandur notaði, að svo miklu leyti sem hægt var og til náðist, eldri þýðingar í hina miklu smíð, og jafnframt sínar eigin. Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar (1514/1515–1556), sem út hafði komið árið 1540, tók hann upp eftir að hafa yfirfarið það, leiðrétt villur o.s.frv. Sumt var það til bóta en annað ekki. Aðrir sem vitað er um að áttu hlut að máli voru Gissur Einarsson (um 1512–1548) og e.t.v. Gísli Jónsson (um 1515–1587) og Ólafur Hjaltason (um 1491–1569).
Guðbrandsbiblía er talin vera eitthvert mesta bókmenntaafrek þjóðarinnar og einhver mesti skerfur til íslenskrar menningarsögu, fyrr og síðar. Að því er sagnir herma eiga sjö menn að hafa unnið við prentun hennar í eitt og hálft eða tvö ár.
Hún var prentuð í 500 eintökum. Brotið var stórt, svokallað fólíó, og blaðsíður 1.254.
Til nýjunga heyrði í íslenskri bókagerð að Biblían var skreytt myndum, hátt í 30 talsins.
Hvert eintak kostaði 8–12 ríkisdali sem var feiknaverð á þeim tíma og svaraði til tveggja eða þriggja kýrverða.
Guðbrandsbiblía er ein af örfáum fyrri alda útgáfum sem endurprentaðar hafa verið í óbreyttri mynd og það í tvígang. Fyrst var hún ljósprentuð og útgefin af Lithoprenti á árunum 1956–1957, í 500 eintökum, og síðan ljósprentuð og gefin út öðru sinni af bókaforlaginu Lögbergi, árið 1984, í 400 eintökum.
Viðeyjarbiblía – 1841
Þetta er sjötta biblíuútgáfa Íslendinga. Hún var prentuð í Viðey og er jafnan kennd við þann stað.
Um nýþýðingu var að ræða en ekki að öllu leyti úr frummálunum. Blaðsíður eru 1.464. Þeir sem að verkinu komu voru Árni Helgason (1777–1869), Ásmundur Jónsson (1808–1880), Geir Vídalín (1761–1823), Hallgrímur Scheving (1781–1861), Hannes Stephensen (1799–1856), Helgi Thordersen (1794–1867), Ísleifur Einarsson (1765–1836), Jón Jónsson í Möðrufelli (1759– 1846), Jón Jónsson í Steinnesi (1808–1862), Jón Jónsson lektor (1777–1860), Markús Jónsson (1806–1853), Ólafur E. Johnsen (1809–1885), Steingrímur Jónsson (1769– 1845), Sveinbjörn Egilsson (1791–1852) og Þorsteinn Hjálmarsen (1794–1871).
Dómur sögunnar er, að þarna hafi margt verið afar fagurlega þýtt. Alþýðlegur blær sveif þó yfir vötnunum, bæði í orðavali og stafsetningu, í anda Fjölnismanna. Eru fræðimenn yfirleitt sammála um, að þrátt fyrir ýmsa galla sé Viðeyjarbiblía „mikil framför frá útgáfunum í Höfn 1747 og 1813“, þótt hún kunni að standa „gömlu íslenzku útgáfunum eitthvað að baki að ytri frágangi“.
Annað nafn hennar er Jedoksbiblía, eftir rangri þýðingu á einum stað í Gamla testamentinu (Fyrri Konungabók 9.24).
Upplag var um 1.400 eintök.
Þýðingin 1981
Þetta var í grunninn Biblía 20. aldar (frá 1912) að öðru leyti en því, að hér voru guðspjöllin þýdd að nýju úr grísku. Blaðsíður eru 1.450.
Að verkinu komu m.a. Ásmundur Guðmundsson (1888–1960), Björn Magnússon (1904–1997), Guðmundur Sveinsson (1921–1997), Jóhann Hannesson (1910–1976), Jón Sveinbjörnsson (1928), Magnús Már Lárusson (1917–2006), Sigurbjörn Einarsson (1911– 2008), Þórir Kr. Þórðarson (1924–1995).
Ytri búningur var um margt frábrugðinn því sem áður tíðkaðist. Síður voru tvídálka (eins og að vísu í Steinsbiblíu 1734 og Lundúnabiblíunni 1866) og millifyrirsagnir og tíð greinaskil áttu að gera textann léttari og aðgengilegri. Þá var tekið upp nýtt tilvísunarkerfi, með lykilorðum neðanmáls, franskt að uppruna, þar sem bent var til sambærilegra ritningargreina um alla Biblíuna. Þá var ákveðið að fella niður „z“ og einnig fallbeygingar á nafninu „Jesús“. Í viðbæti aftast voru svo nokkrar orðskýringar og landakort, auk þess sem var að finna kynningu á ritum Biblíunnar og skrá yfir mikilvæga ritningarstaði. Og að síðustu má nefna að pappír var hafður kremlitaður, til að lesendur þreyttust síður í augum.
Biblían 1981 var prentuð margsinnis og í gríðarlegu upplagi frá útgáfuári og þar til sú nýjasta kom út, 2007.
Biblía 21. aldar
Þetta er 11. biblíuútgáfan á íslensku. Um nýþýðingu er að ræða, þá sjöttu frá upphafi, og núna úr frummálunum, eins og í útgáfunni 1912/1914.
Þýtt var eftir frummálunum en við yfirferð studdust þýðingarnefndir Gamla og Nýja testamentisins — sem ákvörðuðu að lokum hver textinn skyldi vera — við eldri útgáfur íslenskar, sem og nýjar þýðingar frá Danmörku, Noregi og Svíþjóð, og svo þýskar Biblíur, breskar og bandarískar. Nefndunum var gert að hafa að leiðarljósi trúmennsku við frumtextann og stíl hans, en jafnframt vandað og aðgengilegt nútímamál. Þá var ákveðið að nota að jafnaði tvítölumyndina við/okkur í sögutextum, beinni frásögn, lagatextum og prósa, en fleirtölumyndina vér/oss í litúrgískum textum, sálmum, bænum og ljóðum. Hvað Nýja testamentið áhrærir er textinn almennt í tvítölu nema ræður Jesú, orð engla og bænir og í bréfunum eru lofsöngvar í fleirtölu.
Að verkinu komu m.a. Árni Bergur Sigurbjörnsson (1941–2005), Einar Sigurbjörnsson (1944), Guðrún Kvaran (1943), Gunnar Kristjánsson (1945), Gunnlaugur A. Jónsson (1952), Jón Rúnar Gunnarsson (1940–2013), Jón Sveinbjörnsson (1928), Sigurður Pálsson (1936), Sigurður Örn Steingrímsson (1931–2002) og Þórir Kr. Þórðarson (1924–1995).
Í fyrsta sinn er reynt að koma hér á málfari beggja kynja. Oftast var t.d. fornafninu „þeir“ í Gamla testamentinu breytt í hvorugkyn, ef fullljóst var að um blandaðan hóp var að ræða, annars ekki. Svipað var upp á teningnum með Nýja testamentið, þar má nú víða lesa „systkin“ þar sem áður hefur staðið „bræður“.
Lýsing á biblíuþýðingum hér að ofan var skrifuð fyrir sýningarskrá sýningarinnar „Þann arf vér bestan fengum“ sem opnuð var í Þjóðarbókhlöðunni 26. september 2015. Textanum hefur verið lítillega breytt fyrir vefsíðuna.