Úr ávarpi Sigurbjörns Einarssonar, biskups, í Afmælisriti Hins íslenzka Biblíufélags 1815-1965.
Um það leyti sem móðuharðindin gengu yfir Ísland og tveir biskupsstólar hrundu hér á landi eða réttara sagt voru seldir til niðurrifs til þess að koma fjárhag ríkisins í betra horf, var stúlka að alast upp á fátæku heimili í Wales á Bretlandi. Það var víðar örbirgð í þá daga en á Íslandi. Svo var á þessu heimili. Eigi að síður hafði stúlkunni tekizt að læra að lesa og er ókunnugt og lítt skiljanlegt, hvernig hún hefur farið að því. En þegar henni hafði tekizt þetta, vaknaði hjá henni löngun til þess að eignast Biblíu.
Foreldrar hennar höfðu ekki skotsilfur til daglegra nauðsynja, hvað þá til slíkra útgjalda sem kaupa á Biblíu, því að hún var dýr bók á þeim tíma. En María litla – svo hét stúlkan – vildi ekki gefa frá sér vonina. Hún reyndi að vinna sér inn aura með ýmsum snúningum fyrir nágranna og eftir eitt ár hafði hún önglað saman einum skildingi. Ódýrasta Biblía, sem hugsanlegt var að komast yfir, kostaði að minnsta kosti 20 skildinga.
Nú missti faðir hennar atvinnu sína og móðir hennar veiktist. María litla varð að leggja skildinginn sinn til heimilisins. En hún gafst ekki upp. Hún fór aftur að safna. Árum saman vann hún, neitaði sér um allt, lagði hvern sparaðan eyri í biblíusjóðinn sinn. Loksins kom að því, að hún taldi sjóðinn orðinn nægilega gildan til þess að draumurinn gæti rætzt. En hvar átti hún að fá eintak af Biblíunni? Enginn maður í þorpinu hennar átti þá bók á hennar móðurmáli, welskri tungu, ekki einu sinni presturinn. En presturinn hennar þekkti prest í öðru héraði, sem átti aukaeintak, og hann lofaði að skrifa honum bréf, sem María gæti farið með til hans, ef hún réðist í að leita hann uppi.
Hún lagið af stað, fótgangandi. Leiðin var 25 enskar mílur. Hún rataði ekki en spurði til vegar og komst á leiðarenda á tveimur dögum. Hún leitaði uppi prestinn og bar fram erindi sitt, uppburðarlítil, feimin og uggandi um erindislok. Og þegar hún hafði stunið upp orðum sínum, dundi yfir reyðarslagið: Presturinn var búinn að lofa öðrum manni eintaki sínu af Biblíunni og auk þess hrökk það gjald, sem María hafði, hvergi nærri fyrir andvirðinu. Við þessi tíðindi brast hugur og þrek stúlkunnar. Allt var unnið fyrir gýg. En þegar prestur sá, hvernig henni varð við, gaf hann henni Biblíuna og með hana undir hendinni fór hún, labbaði dagleiðirnar tvær aftur heim, mesta hamingjukona í heimi. Svo lýkur þessari sögu. Nei, henni lýkur reyndar ekki hér.
Presturinn, sem María hafði heimsótt, gleymdi ekki þessu atviki. Hann fór á fund í nýlega stofnuðu Smáritafélagi í London, sagði þar söguna og bætti við: „Vér verðum að finna einhver úrræði til þess að prenta Biblíuna handa fátæklingunum í Wales.“ Um leið og hann sagði þetta, spratt einn fundarmanna á fætur og sagði: „Hvers vegna aðeins handa fátæka fólkinu í Wales? Hví ekki handa allri þjóðinni? Hví ekki handa öllum heiminum?“
Tveimur árum síðar en þessi fundur var haldinn, þ.e. árið 1804, var stofnað Biblíufélag í London, Hið brezka og erlenda Biblíufélag. Neistinn, sem barst frá huga snauðrar stúlku, varð að loga, sem fór um lönd og álfur. Það varð vakning í hinum kristna heimi undir kjörorðinu: Gjörum fátækum kleift að eignast Biblíuna, hjálpumst að til þess, að Guðs orð verði meira lesið, betur kunnugt, breiðum það út um allan heim. Biblíufélögin voru ávöxtur og starfstæki þessarar vakningar. Hugmyndin var ekki ný. Margt hafði verið gjört, mörg stórvirki unnin víða um lönd til þess að greiða fyrir því, að Biblían kæmist í hendur sem flestra.
Muna megum vér Íslendingar þrekvirki Odds Gottskálkssonar, Gissurar biskups og Guðbrands biskups, svo að frumherjar einir séu nefndir. En tæknin var á því stigi, að útgáfur hlutu að verða dýrar og ekki við alþýðuhæfi um verð. Og um aldamótin 1800 var, þrátt fyrir mikið starf í öllum löndum mótmælenda, tilfinnanlegur skortur á Biblíum, eins og saga Maríu Jones ber með sér.
Með stofnun Hins brezka og erlenda Biblíufélags 1804 urðu mestu tímahvörf í útbreiðslu Biblíunnar, sem orðið höfðu síðan biblíuvakning siðbótarinnar hófst með þýðingu og útgáfum Lúthers. Í kjölfar brezka Biblíufélagsins komu hliðstæð félög á næstu árum í mörgum löndum. Hið íslenzka Biblíufélag var stofnað 11 árum síðar en hið brezka, 10. júlí 1815. Það er ekki aðeins elzta starfandi félag landsins, heldur meðal hinna elztu Biblíufélaga í heimi.