Eftirfarandi kafla um stofnun Hins íslenska biblíufélags er að finna í bókinni Ebenezer Henderson og Hið íslenska Biblíufélag eftir Felix Ólafson.

Hið íslenska Biblíufélag

Því hefur verið haldið fram, að stofnun Hins íslenska Biblíufélags hafi verið merkasti atburðurinn í íslensku kirkjulífi um daga Geirs biskups Vídalíns. Það er að segja á fyrsta aldarfjórðungi 19. aldar. Mun það ekki vera ofmælt, þótt fátt benti til þess á stofndegi að svo væri. Félagið varð til á örlagatímum, stofnanir, sem um aldaraðir höfðu verið máttarstoðir í lífi þjóðar og kirkju, höfðu verið lagðar niður. Og flest af því, sem kom í þeirra stað, var ekki til frambúðar. Öðru máli gegndi um Biblíufélagið. Þar var það tré gróðursett, sem átti eftir að festa rætur í íslenskum jarðvegi og bera ávöxt um langan aldur, þótt það ætti lengi erfitt uppdráttar, eins og flestur annar gróður á Íslandi. Hann spáði því maðurinn, sem frumkvæðið átti, að félagið myndi verða til blessunar fyrir margar óbornar kynslóðir á Íslandi. Sú spá hefur sannarlega ræst.

Hið íslenska Biblíufélag var stofnað á prestastefnu í Reykjavík 10. júlí 1815, og er því elsta starfandi félag landsins. Ebenezer Henderson átti frumkvæðið að stofnun þess, og hefði það að öllum líkindum ekki orðið til, ef hans hefði ekki notið við. Hins vegar hefði málið aldrei komist í framkvæmd, ef hann hefði ekki notið stuðnings áhrifamanna, og frá upphafi var félagið algjörlega á íslenskum höndum. Þessir menn hljóta því að teljast meðstofnendur þess, og má raunar skipa þeim í tvo flokka. Í þrengri hópnum eru þeir embættismenn kirkju og þjóðlífs, sem Henderson ræddi við fyrir stofnfundinn. En í hinum flokknum eru svo fulltrúar þjóðarinnar eða kirkjunnar 19 eða 22 talsins, er sátu stofnfundinn og léðu málefninu stuðning sinn með því að undirrita stofnskjal félagsins. Þegar stofnfundurinn var haldinn, naut biblíumálefnið stuðnings mikils þorra prestastéttarinnar og fjölmargra annarra. Það var að verulegu leyti að þakka kynningarstarfi Hendersons. Mennirnir, sem sátu aukafund prestastefnunnar þann 10. júlí 1815, voru fulltrúar þessara ónafngreindu stuðningsmanna.
Í ferðabókinni segir Henderson, að það hafi verið eitt megintakmark sitt með ferðinni til Íslands að vinna að stofnun biblíufélags fyrir landið. „Skyldi það vera hlutverk félagsins að sjá þjóðinni sífeldlega fyrir Heilagri Ritningu á tungu landsins. Mér var það ánægja, hve tillagan fékk góðar undirtektir hjá öllum þeim, er ég bar hana upp fyrir. Það var álit þeirra, að kauptíðin mundi hentugasti tíminn til þess að koma hugmyndinni í framkvæmd. Ég lagði þá málið formlega fyrir biskup, þegar ég kom aftur til Reykjavíkur, og fullvissaði hann mig um stuðning sinn við það. Hin önnur stjórnvöld lofuðu sömuleiðis hylli og stuðningi“ (bls. 336).

Hér gerir Henderson grein fyrir framvindu málsins. Hann hefur verið búinn að nefna félagshugmyndina við marga bæði í Reykjavík og úti á landi, en eftir heimkomuna að vestan, lætur hann svo til skarar skríða. Ræðir hann þá fyrst við biskup, en síðan við aðra helstu menn staðarins. Aðeins viku eftir komuna til Reykjavíkur segir hann í bréfi til biblíufélagsstjórnarinnar í London (dagsett 6. júlí 1815): „Hið íslenska Biblíufélag mun verða stofnað á þessum stað innan fárra daga, þegar fundur prestastefnunnar verður haldinn. Þar verður gerð ályktun um málið, en síðan samið umferðabréf undirritað af hinum æðstu embættismönnum veraldlegum og kirkjulegum, og verður það sent til allra amtanna, þar sem íbúum verður boðið að styðja þetta góða málefni.“ Athygli skal vakin á því, að allt fór fram á fundinum eins og Henderson minnist á hér. Tillögum hans var fylgt í öllum atriðum. Var reyndar farið eins að og við stofnun Danska Biblíufélagsins, þótt allt væri hér í smækkaðri mynd. (Sjá bls. 93). Eins og svo oft áður, er Henderson hér einbeittur í aðgerðum sínum. Hann vildi ekki að tækifærið gengi sér úr greipum. Í raun og veru var hann ákaflega þreyttur eftir vesturferðina, og satt að segja farinn að láta sig langa heim til ættjarðarinnar. Í fyrrnefndu bréfi segir hann um þetta: „Fyrir handleiðslu Guðs tókst mér að ljúka ferðinni um Vesturland. Það erfiði og sú áreynsla, sem það hafði í för með sér, tók verulega á heilsu mína. En ég vona samt, að mér megi takast með Guðs hjálp að skreppa í stutta ferð norður, og fara síðan þegar henni er lokið, með fyrstu ferð annaðhvort til Bretlands eða Danmerkur.“

10. júlí 1815 var mánudagur. Prestastefnan hófst með guðsþjónustu í dómkirkjunni, þar sem dómkirkjupresturinn sr. Árni Helgason prédikaði. Svo virðist sem heldur fáir prestar hafi verið þar mættir til fundar, og biskup var hvergi sjáanlegur. Hann hafði veikst kvöldið áður, og gat ekki tekið þátt í prestastefnunni. Samt sem áður má gera ráð fyrir að fjölmennt hafi verið í dómkirkjunni þennan dag. Kauptíðin stóð enn yfir og margir aðkomumenn hafa eflaust viljað nota tækifærið til þess að hlýða messu í Reykjavík. Auk þess hafði hinn erlendi gestur og það málefni, sem þarna var á dagskrá, vakið athygli manna, og mörgum hefur leikið forvitni á að vita, hvað þarna var að gerast.

Í ræðu sinni gerði sr. Árni „skörulega grein fyrir nytsemi biblíufélaga,“ segir Henderson. „Hann talaði sérstaklega af mikilli tilfinningu um hið feikna umfangsmikla starf, er Breska og erlenda Biblíufélagið ynni, og hve ákaflega vel starfsemi þess hefði lánast. Gaf hann stutt yfirlit yfir það, hvað félagið hefði gert fyrir Ísland. Hann lauk máli sínu með því að biðja prestastefnuna um að koma til samvinnu fyrir þetta dýrlega málefni og grípa nú tækifærið, til þess að koma á fót svipuðum félagsskap á Íslandi“ (bls. 336-7).

Eftir messu komu prestarnir saman á heimili biskups til venjulegra fundarhalda. Að þeim loknum var gert hlé á dagskrá, en þeir sr. Markús stiftprófastur og sr. Steingrímur í Odda voru sendir til bústaðar Hendersons, sem var skammt frá heimili biskups. Var Henderson boðið að koma til fundarins, því nú ætti að ræða biblíumálefnið. Líklega hafa þessir tveir prófastar stjórnað fundinum í forföllum biskups. Auk þess má gera ráð fyrir að prestastefnunni hafi í raun og veru verið lokið, og að þarna hafi því verið um einskonar aukafund að ræða, og hafi nokkrum útvöldum verið boðið að sitja þann fund ásamt prestunum. Hverjir voru þá hinir útvöldu meðstofnendur Hins íslenska Biblíufélags? Í fyrsta söguágripi Biblíufélagsins eftir sr. Pétur Pétursson síðar biskup segir svo í upphafi: „Árið 1815 10. dag júlímánaðar áttu nokkrir embættismenn fund með sér í Reykjavík í þeim tilgangi, að stofna biblíufélag hjer á landi.“ Neðanmáls bætir hann við: „Þessir menn voru: Geir Vídalín, stiftprófastur, M. Magnússon, dómkirkjuprestur (nú stiftprófastur), Á. Helgason, Ísl. etazráð Einarsson, landsyfirréttardómari (seinna amtmaður), B. Thorarensen og landfógeti S. Thorgrímsson.“ Þessa menn telur sr. Pétur hina réttu stofnendur félagsins. Og vafalaust eru þetta einmitt þeir menn, sem Henderson hefur rætt við fyrir fundinn og öðrum fremur hafa þeir því orðið til þess að ýta fleytunni úr vör. Samt sem áður er þetta ónákvæmt. Í fyrsta lagi var Geir Vídalín ekki á fundinum. Í öðru lagi voru þar aðrir, sem vert er að geta um. Í raun og veru telur sr. Pétur hér upp fyrstu bráðabirgðastjórn eða undirbúningsnefnd félagsins, sem kjörin var á þessum fundi. En hverjir kusu nefndina? Henderson getur þess í upphafi frásagnar sinnar af fundinum, að þar hafi verið mættir fjórir prófastar ásamt Ísleifi Einarssyni dómstjóra og Bjarna Þorsteinssyni. Allir hafa þeir haft áhuga á málinu, og sumir meira en aðrir, Bjarni Þorsteinsson er þarna viðstaddur, en ritar ekki nafn sitt undir fundarskjalið. Var það eflaust vegna þess, að hann var þá enn starfsmaður í Rentukammerinu í Kaupmannahöfn og þar var hann meðlimur Danska Biblíufélagsins. Spurningunni um meðstofnendur Hins íslenska Biblíufélags verður aðeins svarað með því að benda á þá menn, sem þarna undirrituðu fundargerðina eða stofnskjalið. Auk Bjarna Þorsteinssonar hafa þá verið þarna eftirtaldir menn: „viðstaddir félagsmenn – members of the Society then present“ – eins og Henderson komst að orði í ferðaskýrslu sinni:

Geir Vídalín, biskup í Reykjavík.
Markús Magnússon, stiftprófastur á Görðum.
Árni Helgason, dómkirkjuprestur, Reykjavík.
Ísleifur Einarsson, justitsiarius, Brekku.
Sigurður Thorgrímsen, landfógeti, Reykjavík.
Steingrímur Jónsson, prófastur í Odda.
Torfi Jónsson, prófastur í Hruna.
Eggert Guðmundsson, prófastur í Reykholti.
Bjarni Vigfússon Thorarensen, assessor, Reykjavík.
Jón Jónsson, lektor, Lambhússtöðum.
Brynjólfur Sivertsen, prestur í Holti.
Jón Jónsson, prestur, Klausturhólum.
Gestur Þorláksson, prestur í Móum.
Helgi Bjarnason, prestur, Reynivöllum.
Ingimundur Gunnarsson, prestur, Kaldaðarnesi.
Friðrik Thorarensen, prestur Breiðabólstað í Vesturhópi.
Hallgrímur Jónsson, prestur, Görðum á Akranesi.
Magnús Árnason, prestur í Þingeyrarklaustri.
Guttormur Pálsson, prestur í Reyðarfirði.

Loks skal þess getið, að á afriti af ályktun fundarins, sem geymt er í Biskupsskjalasafni á Landsbókasafninu (C.V. 241) eru þrjú nöfn að auki, eins og þeim hafi verið bætt við:

Hjaltalín.
Sk. Thomsen.
Scheving, adjunkt.

Það er annars fróðlegt að virða fyrir sér mennina, sem þennan júlídag árið 1815 fylktu sér um stofuborð Geirs biskups, til þess að rita nafn sitt undir stofnskjal Biblíufélagsins og um leið þá upphæð, sem hver þeirra telur sig hafa efni á að gefa árlega félaginu til eflingar. Það er fámennur en æði mislitur hópur. Þar er biskup fremstur í flokki. Hann var, eins og fyrr segir fjarverandi, en hefur líklega verið búinn að setja nafn sitt á blaðið áður, svo eru það embættismenn ríkisvaldsins. Bjarni Thorarensen gegnir störfum stiftamtmanns í fjarveru hans og er að auki dómari og svo er það landfógeti, fulltrúi fjármáladeildarinnar í Kaupmannahöfn. Það átti því miður fyrir honum að liggja að valda félaginu tilfinnanlegu tjóni nokkrum árum síðar. Og loks yfirdómarinn, sem til æviloka reyndist félaginu tryggur liðsmaður. Svo eru á listanum nokkrir kennarar Bessastaðaskóla, þáverandi og fyrrverandi, og loks tiltölulega fjölmennur hópur prófasta og presta, bæði sæmilega efnaðir og bláfátækir. Þó svo virðist sem þessi prestastefna hafi verið illa sótt, verður því ekki mótmælt, að Hið íslenska Biblíufélag, var stofnað á prestastefnu landsins, en það er einsdæmi um Biblíufélög Norðurlanda.

En beinum nú athyglinni að þeim fjárupphæðum, sem meðlimirnir vilja greiða félaginu árlega. Aðferðin hefur talsvert auglýsingagildi. Tölurnar aftan við nöfn meðlimanna vekja væntanlega aðra og hvetja aðra, til þess að gera slíkt hið sama, smæstu upphæðirnar ekki hvað síst. Þær gefa væntanlega öðrum hugrekki til þess að gefa til málefnisins af fátækt sinni. Biskup heitir því að greiða árlega 20 silfurdali til félagsins. Hvað er maðurinn að hugsa? Þetta er mikil upphæð, meira en árslaun margra presta hans. Dómstjórinn í Brekku telur sig þess ekki umkominn að gefa nema fjórðung þeirrar upphæðar, en hann er líka gætinn maður og stendur við orð sín. Er þetta e.t.v. veikleiki Geirs biskups góða, sem þarna kemur í ljós? Að vilja gefa meira og gera betur en efni standa til!

Fjórir prófastar eru meðal stofnendanna og allir úr Skálholtsstifti. Í þeirra flokki er einn glæsilegasti menntamaður stéttarinnar, Steingrímur Jónsson. Allir prófastarnir heita félaginu árlegri gjöf í silfri, allir nema sr. Torfi í Hruna, prófastur Skálholts og Árnessýslu. Þar um slóðir hafa menn ekki ráð á slíkri rausn. Sr. Torfi lofar að greiða árlega 4 dali til félagsins í gengisverði (kúrant). Að norðan og austan, úr Hólastifti, komu þeir prestar sr. Friðrik Thorarensen, frá Breiðabólsstað í Vesturhópi, próflaus guðfræðingur frá Kaupmannahöfn og bróðir þeirra Stefáns á Möðruvöllum og Vigfúsar sýslumanns. Sr. Magnús Árnason frá Þingeyrarklaustri er líka að norðan, en Sr. Guttormur Pálsson frá Hólmum á Reyðarfirði er einn fulltrúi Austurlands. „Biblían á góðan vin, þar sem hann er“ (bls. 132), skrifaði Henderson, þegar hann hafði verið í kirkju hjá sr. Guttormi og rætt við hann það, sem eftir var dagsins.

Skal nú ekki fjölyrt frekar um meðstofnendur Biblíufélagsins, nema þá fjóra, sem ég leyfi mér að kalla kúrant-prestana. Þeir eru einir um að vilja greiða árgjöld sín til félagsins í kúrant-dölum auk sr. Torfa í Hruna. Sr. Jón á Klausturhólum í Grímsnesi er einn þeirra. Hann hefur verið prestur á Klausturhólum í átta ár og hvergi annars staðar. Það mun ekki hafa verið talið sérstaklega feitt brauð. Sr. Ingimundur Gunnarsson í Kaldaðarnesi í Flóa var jafnaldri sr. Jóns. Báðir 43 ára, en sr. Ingimundur hafði verið prestur lengur, fyrst aðstoðarprestur í Arnarbæli í níu ár, en síðustu þrjú árin sóknarprestur í Kaldaðarnesi. Hann lést á Ólafsvöllum átta árum síðar. Sr. Gestur í Móum var líka meðal kúrant prestanna. Hann heitir því með undirskrift sinni að greiða einn kúrant dal árlega til félagsins. Það er lægsta upphæðin á listanum. En er það um leið minnsta upphæðin? Sr. Gestur hefur tæplega gefið aleigu sína eins og ekkjan forðum, en hann hefur munað um biblíudalinn. Hann hafði tekið vígslu 24 ára gamall og verið í fyrstu aðstoðarprestur að Görðum á Akranesi, sem þá var með fátæklegustu prestsstöðum á landinu. Fimm árum síðar fékk hann veitingu fyrir Reykjadal í Árnesprófastsdæmi. Þremur árum síðar er hann kominn að Hrepphólum og ári síðar að Hvalsnesi. Hvað var það, sem dró hann að fátæku fiskimönnunum? Eftir að hafa þjónað Hvalsnesi í tíu ár fékk hann loks Kjalarnesþing, Saurbæ og Brautarholt. Prestssetrið var að Móum. Það var þá, sem hann ákvað að gefa Guði einn kúrant dal árlega til biblíustarfsins. Hann lést sex árum síðar, 68 ára að aldri.

Loks er það svo sr. Helgi Bjarnason frá Reynivöllum. Hann skrifaði sig fyrir tveimur kúrant-dölum. Þetta var árið eftir að hann fékk Reynivelli, þegar sr. Árni fluttist til Reykjavíkur. En gleðin yfir nýja embættinu stóð stutt. Hann lést 2. júlí 1816, nákvæmlega ári eftir stofnfund Biblíufélagsins. Náði aðeins að gefa einu sinni tvo dali til biblíustarfsins. Það ríður á að nota hverja stundina.

Þessir menn voru einnig meðstofnendur Hins íslenska Biblíufélags. Með fordæmi sínu hvöttu þeir landa sína til dáða. Á fyrstu meðlimaskrám biblíufélaganna víða um Evrópu má finna mörg nöfn stórmenna. En þar eru líka nöfn smælingja. Þar eru bæði fátækir prestar og óbrotið alþýðufólk. Það var einmitt eitt af einkennum biblíuhreyfingarinnar. Bókin, sem öllum var ætluð, var einnig sameiginlegt verkefni allra, sem kynntust henni. Á þann hátt urðu biblíufélögin liður í þjóðfélagsbyltingu 19. aldar. Þar mátti finna þær lýðræðishugsjónir, sem mörgum áratugum síðar voru gerðar að lögum í mörgum löndum. Það er gott til þess að hugsa, að meðal fyrstu áhugamanna Hins ísl. Biblíufélags hafi einnig verið maður eins og sr. Gestur í Móum.

Þegar Henderson kom á fundinn ásamt þeim sr. Steingrími og sr. Markúsi, var biblíumálið tekið til umræðu, og er svo að sjá sem Henderson hafi þar sjálfur haft framsögu í málinu. Um það segir hann í ferðabókinni: „Eftir að ítarlega hafði verið gerð grein fyrir hlutverki Biblíufélagsins og fjárstyrk frá Breska og erlenda Biblíufélaginu lofað, samþykkti fundurinn í einu hljóði, að félag skyldi stofnað“ (bls. 337). Hér er enginn annar framsögumaður nefndur á nafn. Enginn nema Henderson hafði heldur getað lofað fjárstyrk frá breska félaginu, en hann hafði hins vegar umboð til þess. Veitti Breska Biblíufélagið £300 til íslenska félagsins í sambandi við stofnun þess.

Allt fór nú mjög á þann hátt sem Henderson hafði minnst á í bréfinu 6. júlí. Fundarmenn samþykktu í einu hljóði að stofna íslenskt biblíufélag, og jafnframt var samþykkt að semja ávarp til þjóðarinnar. „En það þótti besta ráðið, sökum fjarvistar margra þeirra, er talið var beinlínis nauðsynlegt að samþykktu og styrktu félagið, að nægjast með að setja það á laggirnar en fresta til næstu prestastefnu að leggja síðustu hönd á skipulagningu þess,“ segir í stofnskjalinu. Hverjir voru þeir menn, sem þóttu félaginu svo þarfir, að félagsmótun var frestað þeirra vegna? Þeirri spurningu verður aldrei svarað með vissu. Menn hafa einna helst bent á Magnús Stephensen í því sambandi, en hann hafði þá umráð yfir einu prentsmiðju landsins. En ekki er heldur ólíklegt, að Henderson hafi viljað hafa fleiri prófasta með í hópnum og svo amtmennina tvo, þá Stefán á Möðruvöllum og Stefán á Hvítarvöllum. Báðir höfðu sýnt málefninu mikinn áhuga, en hvorugur þeirra var viðstaddur stofnfundinn.
Bráðabirgðastjórn sú, sem áður hefur verið minnst á átti að ganga frá ávarpinu til þjóðarinnar og senda það til allra landshluta fyrir næsta vetur. Og loks var svo ákveðið að næsti fundur skyldi haldinn þann 9. júlí árið eftir. Ekki er vitað, hvort ávarpið hefur nokkurn tíma verið sent út um landið, en vafalaust hafa farið spurnir af því, sem gerst hafði. En samþykkt fundarins hefur varðveist í ferðabókinni og Íslendingar munu því yfirleitt þekkja hana í þýðingu Snæbjarnar Jónssonar. Eitt eintak frumtextans hefur þó varðveist í Biskupaskjalasafni, og er skemmtilegt að bera hann saman við þýðingu Snæbjarnar. Eitthvað hefur málið breyst þrátt fyrir allt:

„Þann 10da Júlí 1815 samankomu í Reykiavík undirskrifaðir men, í þeim tilgangi að stifta hér á landi, eins og víðast anar staðar í heimi er giört, Biblíufélag, hvers höfuð augnamið er, að síá til að ej verði skortur á Biblíum á Móðurmálinu, og að þær útbreiðist eptir þörfum um alt landið. En vegna þess að hér vantar suma af Landsins hellstu mönnum, þá álitst nauðsynlegt að slá á frest til næstu samkomu þann 9da Juli 1816 nákvæmri reglugiörð fyrir félagið, og hafa nærverandi félagslimir þess vegna á hendur falið Herra Biskupi Geir Vídalín, Hr. Stiftprófasti Markúsi Magnússyni, Dómkirkjupresti Árna Helgasyni, Herre Justitiari og Landsyfirréttar assessori Isleifi Einarssyni, Herra Landsyfirréttar assessori Bjarna Thorarensen og Herra Landfógeta Sigurði Thorgrímssyni að inbioda Landsins hellstu mönnum til sömu samkomu í því augnamiði að þá verði nákvæmar ákvörðuð félagsins umsjón og anað þar að lútandi. Í millitíð hafa félagsins núverandi meðlimir skuldbundið sig til að gefa til félagsins féhirðis sem fylgir árlega. (Síðan fylgja nöfn og gjafaupphæðir) Sigurður Thorgrímsson landfógeti skyldi veita greiðslunum viðtöku fyrir Mikjálsmessu.“

Eins og fyrr segir var í flestu farið eins að við stofnun Biblíufélagsins í Reykjavík og gert hafði verið í Kaupmannahöfn. Nefnd hafði undirbúið stofnfundinn þar og boðað til hans. Þar var kosin bráðabirgðastjórn, sem átti að undirbúa lagagerð og aðalfund með stjórnarkjöri. Eftir fundinn var sent ávarp til allra stiftanna með nafnalistum. Í flestu var farið eins að hér. Aðalfundur með stjórnarkjöri fór fram í Kaupmannahöfn 15. ágúst 1815, í Reykjavík 10. september 1816. Lögin voru samþykkt í Kaupmannahöfn 29. febrúar 1816. Sá dráttur olli því, að Henderson dvaldist í Kaupmannahöfn allan þann vetur og fram á vor 1816. – Í Reykjavík dróst einnig að setja félaginu lög, og voru fyrstu lög félagsins samþykkt á þriðja fundi þess 5. nóvember 1816.

Við brottför sína hvatti Henderson til þess að reynt yrði að stofna stuðningsfélög í öllum prófastsdæmum landsins. Þetta mun hafa verið reynt, en tekist illa. Hins vegar voru fyrstu undirtektir manna mjög jákvæðar. Í bréfi dags. 17. júlí 1817 til Danska Biblíufélagsins segir sr. Árni Helgason frá því, að þá hafi félaginu gefist frá stofnun þess samtals 831 ríkisdal og 70 skildinga (kúrant) og 27 silfurdali. Þannig varð Hið íslenska Biblíufélag til. Og það var merkasti atburðurinn í íslensku kirkjulífi um daga Geirs biskups Vídalíns.