Stofnað 10. júlí 1815
1. grein
Félagið heitir Hið íslenska biblíufélag. Aðsetur þess er í Reykjavík.
2. grein
Tilgangur félagsins er að vinna að þýðingu, útgáfu, útbreiðslu og notkun Biblíunnar, m.a. í samstarfi við Sameinuðu biblíufélögin (United Bible Societies – UBS).
3. grein
Félagar geta verið allir þeir sem styðja vilja markmið félagsins.
Fullra félagsréttinda njóta þeir sem greitt hafa tilskilið árgjald eða ævigjald. Aðalfundur ákveður fjárhæð félagsgjalda.
Aðalfundur getur kjörið heiðursfélaga og þarf til þess atkvæði a.m.k. ¾ viðstaddra. Heiðursfélagar hafa tillögurétt og atkvæðisrétt á félagsfundum.
4. grein
Stjórn félagsins fer með æðsta vald í málefnum félagsins milli aðalfunda. Stjórnina skipa 9 menn. Biskup Íslands er sjálfkjörinn forseti. Aðalfundur kýs stjórnarmenn, 4 presta eða guðfræðinga og 4 aðra.
Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum og kýs úr sínum hópi varaforseta, ritara og gjaldkera sem saman mynda framkvæmdastjórn félagsins.
Framkvæmdastjórn starfar í umboði stjórnarinnar að þeim verkefnum sem henni eru falin, einkum varðandi rekstur félagsins.
Stjórn félagsins getur skipað nefndir til að vinna að sérstökum verkefnum.
5. grein
Stjórnin heldur fundi eftir þörfum, þó ekki sjaldnar en þrisvar á ári. Stjórnarfundir eru lögmætir sé meiri hluti stjórnar viðstaddur. Meirihluti atkvæða ræður lyktum mála á stjórnarfundum; sama gildir um fundi framkvæmdastjórnar.
Ef a.m.k. tveir stjórnarmenn eða 25 félagsmenn óska félagsfundar til umræðu um málefni félagsins er skylt að boða til hans eins fljótt og unnt er og halda fundinn eigi síðar en innan þriggja vikna.
6. grein
Stjórn félagsins ber sameiginlega ábyrgð á rekstri félagsins. Skal hún leitast við að ávaxta fjármuni sem best og gæta ítrustu hagsýni.
Reikningsár félagsins er almanaksárið.
7. grein
Stjórninni er heimilt að ráða félaginu framkvæmdastjóra, erindreka og/eða annað starfsfólk eftir því sem nauðsyn krefur.
Framkvæmdastjórinn sér um daglegan rekstur og annast framkvæmd ákvarðana stjórnar en getur jafnframt gert tillögur til stjórnar um starfsemi félagsins í samræmi við tilgang þess. Framkvæmdastjóri situr að jafnaði stjórnarfundi.
8. grein
Stjórnin má útvega félaginu trúnaðarmenn í héruðum landsins. Skal við val þeirra leitast við að ná til sem flestra kirkjudeilda. Trúnaðarmenn hafi í samráði við stjórnina forgöngu um útbreiðslu og notkun Biblíunnar á starfssvæði sínu.
Heimilt er trúnaðarmönnum að efna með sér til samstarfsnefnda.
Trúnaðarmenn og samstarfsnefndir skulu njóta tillöguréttar til stjórnar félagsins um hvaðeina er varðar starfsemi þess.
Kostnaður við félagsstörf á vegum trúnaðarmanna eða samstarfsnefnda greiðist því aðeins úr félagssjóði að heimilað hafi verið fyrirfram.
Samstarfsnefndir skulu senda stjórn félagsins stutt yfirlit yfir starfsemina á liðnu ári eigi síðar en 4 vikum fyrir aðalfund hverju sinni.
9. grein
Stjórnin efnir árlega til samráðsfundar um málefni félagsins með trúnaðarmönnum þess og öðrum félagsmönnum er þátttöku óska.
Ennfremur skulu eiga rétt til setu á téðum samráðsfundum fulltrúar trúfélaga í Samstarfsnefnd kristinna trúfélaga og fulltrúar kristinna félagasamtaka.
10. grein
Aðalfundur skal haldinn fyrir lok aprílmánaðar ár hvert. Þá skal stjórnin gefa skýrslu um störf sín og leggja fram endurskoðaðan ársreikning sem borinn skal upp til samþykktar.
Kosin skal stjórn leynilegri kosningu, tveir menn hverju sinni, 1 prestur eða guðfræðingur og 1 annar, og er kjörtímabil þeirra 4 ár. Þá skulu kosnir tveir skoðunarmenn félagsreikninga til eins árs í senn. Endurkosning er heimil en þó má enginn sitja lengur en 3 kjörtímabil í senn. Launaðir starfsmenn félagsins eru ekki kjörgengir.
Til aðalfundar skal boðað með mánaðar fyrirvara hið minnsta með tilkynningu í dagblöðum og á heimasíðu félagsins og skal fundarefnis getið. Til félagsfunda skal boðað á sama hátt en með tveggja vikna fyrirvara.
Tillögur til lagabreytinga skulu berast stjórn félagsins tveimur vikum fyrir aðalfund. Endurskoðaður reikningur félagsins skal liggja frammi viku fyrir aðalfund, svo og tillögur til lagabreytinga sé um þær að ræða.
11. grein
Verði félagið lagt niður skulu sjóðir þess og aðrar eignir faldar biskupsembættinu til vörslu og skal þeim varið til þess að vinna að þýðingu, útgáfu, útbreiðslu og notkun Biblíunnar.
12. grein
Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og þarf til þess samþykki 2/3 fundarmanna.
—
Ákvæði til bráðabirgða:
Breyttar reglur um kjör til stjórnar sbr. 10. grein skulu koma til framkvæmda þannig að á aðalfundum 2010 og 2012, þegar 4 stjórnarmenn ljúka kjörtímabili sínu hvort ár, skulu tveir kosnir til eins árs og tveir til 4 ára. Tímatakmörk setu í trúnaðarstöðum sbr. sömu grein reiknist frá aðalfundi 2010.
[Nánar tiltekið verður kjöri til stjórnar hagað svo:
2010 4 út en tveir kosnir til 1 árs (2011) og tveir til 4 ára (2014)
2011 2 út og tveir kosnir til 4 ára (2015)
2012 4 út en tveir kosnir til 1 árs (2013) og tveir til 4 ára (2016)]
Samþykkt á aðalfundi Hins íslenska Biblíufélags 13. nóv. 1950, 19. febr. 1995 og 7. febr. 2010.