Daglegur lestur2025-11-23T00:01:48+00:00

Biblíulestur – 9. desember – Júd 1.14–25

Um þessa menn spáði Enok líka, sjöundi maður frá Adam, er hann segir: „Sjá, Drottinn er kominn með sínum þúsundum heilagra til að halda dóm yfir öllum, og til að sanna alla óguðlega menn seka um öll þau óguðlegu verk sem þeir hafa drýgt og um öll þau hörðu orð sem óguðlegir syndarar hafa talað gegn honum.“
Þessir menn eru síkvartandi og kenna öðrum um örlög sín og lifa eftir girndum sínum. Munnur þeirra mælir ofstopaorð og þeir smjaðra fyrir öðrum, sér til ávinnings.
En þið elskuðu, minnist þeirra orða sem postular Drottins vors Jesú Krists hafa áður talað. Þeir sögðu við ykkur: „Á síðasta tíma munu koma spottarar sem stjórnast af sínum eigin óguðlegu girndum.“ Það eru þeir sem valda sundrungu, þeir eru bundnir við þennan heim og hafa eigi andann. En þið elskuðu, byggið ykkur sjálf upp í helgustu trú ykkar. Biðjið í heilögum anda. Látið kærleika Guðs varðveita ykkur sjálf og bíðið eftir að Drottinn vor Jesús Kristur sýni ykkur náð og veiti ykkur eilíft líf.
Sumir eru efablandnir, sýnið þeim mildi, suma skuluð þið frelsa með því að hrífa þá út úr eldinum, sýnið sumum óttablandna mildi og forðist jafnvel klæði þeirra sem flekkuð eru af synd.
En Guði, sem megnar að varðveita yður frá hrösun og láta yður koma fram fyrir dýrð sína lýtalaus í fögnuði, einum Guði sem frelsar oss fyrir Jesú Krist, Drottin vorn, sé dýrð, hátign, máttur og vald frá alda öðli, nú og um allar aldir. Amen.

Biblíulestur – 8. nóvember – Slm 107.33–43

Hann gerir fljótin að eyðimörk og uppsprettur að þurrum lendum, frjósamt land að saltsléttu sakir illsku íbúanna. Hann gerir eyðimörk að vatnstjörnum og þurrlendið að uppsprettum, lætur hungraða setjast þar [...]

Fara efst