Meðan Jesús mælti þetta við þá kom forstöðumaður einn, laut honum og sagði: „Dóttir mín var að skilja við, kom og legg hönd þína yfir hana, þá mun hún lifna.“
Jesús stóð upp og fór með honum og lærisveinar hans.
Kona, sem hafði haft blóðlát í tólf ár, kom þá að baki Jesú og snart fald klæða hans. Hún hugsaði með sér: „Ef ég fæ aðeins snert klæði hans mun ég heil verða.“
Jesús sneri sér við og er hann sá hana sagði hann: „Vertu hughraust, dóttir, trú þín hefur bjargað þér.“ Og konan varð heil frá þeirri stundu.
Þegar Jesús kom að húsi forstöðumannsins og sá pípuleikara og fólkið í uppnámi sagði hann: „Farið burt! Stúlkan er ekki dáin, hún sefur.“ En þeir hlógu að honum. Þegar fólkið hafði verið látið fara gekk hann inn og tók hönd hennar og reis þá stúlkan upp. Og þessi tíðindi bárust um allt héraðið.
Þá er Jesús hélt þaðan fóru tveir blindir menn eftir honum og kölluðu: „Miskunna þú okkur, sonur Davíðs.“
Þegar hann kom heim gengu blindu mennirnir til hans. Jesús spyr þá: „Trúið þið að ég geti gert þetta?“
Þeir sögðu: „Já, Drottinn.“
Þá snart hann augu þeirra og mælti: „Verði ykkur að trú ykkar.“ Og augu þeirra lukust upp. Jesús lagði ríkt á við þá og sagði: „Gætið þess að enginn fái að vita þetta.“
En þeir fóru og víðfrægðu hann í öllu því héraði.
Þegar þeir voru að fara var komið til Jesú með mállausan mann, haldinn illum anda. Og er illi andinn var út rekinn tók málleysinginn að mæla. Mannfjöldinn undraðist og sagði: „Aldrei hefur þvílíkt sést í Ísrael.“
En farísearnir sögðu: „Með fulltingi höfðingja illra anda rekur hann út illu andana.“
Jesús fór nú um allar borgir og þorp og kenndi í samkundum þeirra. Hann flutti fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hvers kyns sjúkdóm og veikindi. En er Jesús sá mannfjöldann kenndi hann í brjósti um hann því menn voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir er engan hirði hafa. Þá sagði hann við lærisveina sína: „Uppskeran er mikil en verkamenn fáir. Biðjið því Drottin uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“