Þótt ég vonist til að koma bráðum til þín rita ég þetta til þess að þú skulir vita, ef mér seinkar, hvernig á að haga sér í Guðs húsi. Guðs hús er söfnuður lifanda Guðs, stólpi og grundvöllur sannleikans. Og víst er leyndardómur trúarinnar mikill:
Hann birtist í manni,
sannaðist í anda,
opinber englum,
var boðaður þjóðum,
trúað í heimi,
hafinn upp í dýrð.
Andinn segir berlega að á síðustu tímum muni sumir ganga af trúnni og gefa sig að villuöndum og lærdómum illra anda. Þessu valda hræsnisfullir lygarar sem eru brennimerktir á samvisku sinni. Þeir banna hjúskap og bjóða mönnum að halda sér frá þeirri fæðu er Guð hefur skapað til þess að við henni sé tekið með þakklæti af trúuðum mönnum er þekkja sannleikann. Allt sem Guð hefur skapað er gott og engu ber frá sér að kasta sé það þegið með þakklæti. Það helgast af orði Guðs og bæn.