Lífi hins 21 árs gamla, óbreytta hermanns, Pte[1] Frank Viner, var bjargað í Somme af Biblíunni hans.
Faðir hans hafði gefið honum hana tæpum þremur mánuðum fyrir afmæli hans. Hvorugan þeirra gat órað fyrir því að bókin sú myndi bjarga lífi Franks.
Dóttir hans, Grace Cross, sem er áttræð, frá Leatherhead í Surrey, lýsir Frank sem léttlyndum, hugulsömum og hamingjusömum manni, sem alltaf var reiðubúinn að leggja öðrum lið. Hún rekur söguna:
„Hann geymdi alltaf Biblíuna sína í hægri brjóstvasanum,“ segir hún. „Þeir voru í skotgröfunum við Somme og af einhverri ástæðu færði hann Biblíuna yfir í vinstri brjóstvasann.
Síðan heyrði hann orð úr 91. Davíðssálmi í huga sér: „Þar segir (í 7. versi): „Þótt þúsund falli þér við hlið og tíu þúsund þér til hægri handar þá nær það ekki til þín.“
Síðan kvað við gríðarlegur hvellur þegar fallbyssuskot hæfði skotgrafirnar. Félagar hans týndu lífi allt í kringum hann.“
Frank féll til jarðar vegna fallbyssuskotsins, einkennisbúningur hans rifnaði og hjálmurinn fauk af honum. Hann hefði einnig dáið ef ekki hefði orðið fyrir Biblíuna hans.
„Risastórt stykki úr sprengikúlu stóð fast í henni og hafði rifið hana í sundur spjaldanna á milli,“ segir Grace.
„Hefði hann ekki fært hana yfir í vinstri vasann, hefði hann látið lífið,“ bætir hún við.
„Faðir minn sagði alltaf að Biblían sín hefði bjargað lífi sínu,“ segir Grace. „Honum fannst eins og Guð væri að vernda sig. Þetta var einstök lífsreynsla.“
Þetta átti eftir að hafa varanlegar afleiðingar. Andlegt áfall af völdum þessa atviks varð til þess að Frank var fyrst fluttur á sjúkrahús og síðan frá fremstu víglínu það sem eftir var af fyrri heimsstyrjöldinni.
Grace trúir því að þetta atvik hafi orðið til þess að faðir hennar fékk tvö taugaáföll síðar á lífsleiðinni.
En það styrkti hann líka í trúnni. „Það leið ekki sá sunnudagur að hann færi ekki tvisvar í kirkju,“ segir hún.
„Hann hefði farið í prestsskap og varði ári við nám í biblíuskóla eftir stríðið, en að lokum fór hann að vinna í bakaríi fjölskyldunnar. En hann prédikaði alltaf sem leikmaður um reynslu sína af stríðinu.
Eftir Hazel Southam
Þorgils Hlynur Þorbergsson þýddi á íslensku
[1] Pte er stytting úr private, en það er lægst setta staðan innan breska hersins. Sjá þar: https://en.wikipedia.org/wiki/Private_(rank)