Edward Kajivora:
Fiskar eru miðdepill lífshátta Shilluk-fólksins. Það borðar fisk, selur fisk og sofnar út frá hugsunum sínum um fisk! Fiskur er því allt. Eiginmaður hefur lagalegan rétt á því að skilja við eiginkonu sína ef hún eldar ekki höfuð fisksins og ber það á borð fyrir hann.
Læsi í Suður-Súdan er afar lítið — aðeins 30% karla og 10% kvenna eru læs og skrifandi. Shilluk-fólkið, einnig þekkt sem Collo-fólkið), sem varð illa úti af völdum borgarastyrjaldarinnar, eru á meðal hinna fátækustu og minnst menntuðu í landinu. Þess vegna hóf Biblíufélagið, sem gaf út fyrstu Shilluk-Biblíuna árið 2013, nýlega læsisverkefni í borginni Kodok — höfuðstað Shilluk-þjóðflokksins.
Takmarkaður áhugi fyrir hendi
Áhugann fyrir þessu skorti á meðal Shilluk-fólksins, jafnvel þótt tveir kristnir Shilluk-menn hefðu staðið að þessu átaki, prófessor Twong Yalong Kur, sanntrúaður kaþólikki og framkvæmdastjóri Collo-tungumálaráðsins og Peter Majwok, prestur öldungakirkjunnar í Suður-Súdan.
Andspænis áhugaleysi og andstöðu, þrátt fyrir að prófessor Yolong hefði útskýrt hina fjölþættu kosti þess að kunna að lesa, datt honum snjallræði í hug; hann ákvað að nota Ritninguna sjálfa sem aðferð við að telja fólkinu hughvarf — einkum texta sem vísuðu til fiska eða fiskveiða!
Þegar hann las upphátt úr Mark. 1.17: „Komið og fylgið mér og mun ég láta yður menn veiða“ og Matt 14.16-21 um það hvernig 5.000 manns urðu mettir af tveimur fiskum og fimm brauðhleifum, tók hann eftir því að fólkið settist upp og hlustaði af ákafa. Margt af því hélt áfram að sækja lestrarkennsluna.
Tveir fiskar með einum öngli
„Ég náði tveimur fiskum með einum öngli,“ sagði prófessor Yolong. „Nokkrir voru með í lestrarkennslunni, sumir þeirra urðu kristnir og munu taka skírn.“
Hann bætti því við að aðrar sögur úr Biblíunni hafi ekki runnið svona ljúflega niður hjá sumu Shilluk-fólkinu.
„Ég las fyrir það söguna um Jónas og hvernig hann dvaldi í maga hvalsins í þrjá daga. Margt fólk neitaði að trúa þessari sögu eða meðtaka hana.“
En þegar Yoane Ajak, sem ólst upp á tímum fyrstu Anyanya-styrjaldarinnar (1955-1972), heyrði söguna, sagði hann við prófessor Yolong: „Við borðum fisk og fiskurinn okkar étur ekki fólk. Hvers konar fiskur er þetta?“ Sakir forvitni sótti hann lestrarkennsluna, varð kristinn og er nú aðstoðarmaður í skólanum.
Nýlega keypti hann Shilluk-Biblíu, sem hann les reglulega í og finnur von í henni. „Þetta stríð lætur okkur þjást, en dag nokkurn munum við iðrast, færast nær honum og stríðinu lýkur,“ segir hann.
Krafðist mikils hugrekkis
Það krafðist mikils hugrekkis hjá húsmóðurinni Ozoonwa Nyumbe að sækja lestrarkennsluna. Hún hélt ótrauð áfram, er stolt af því að eiga Biblíu og les upphátt úr henni í kirkjunni.
„Þegar ég tók að mæta í lestrarskólann hélt margt fólk að ég væri bara löt og reyndi að komast hjá því að sinna heimilisverkunum,“ útskýrir hún. „En þegar það sá mig lesa úr henni við guðsþjónustur varð gagnrýnin að lofgjörð! Fleiri konur hafa nú einnig farið að sækja kennslustundir.“
Ein grundvallarástæða styrjaldarinnar
Margt menntafólk í Suður-Súdan trúir því að ólæsi sé ein grundvallarástæða borgarastyrjaldarinnar, sem braust út árið 2013. Á meðan vargöldin stóð yfir í Súdan, er það var enn eitt ríki, var menntun í suðurhlutanum að heita má ekki til að dreifa. Þess vegna er læsi svona skelfilega lítið hér. Margt fólk í háum stöðum kann hvorki að lesa né skrifa, og fáfræði hefur breiðst út eins og sjúkdómur.
Aukið læsi í þessu landi mun veita fleira fólki tækifæri til menntunar. Það lærir að fyrirgefa og greina rétt frá röngu. Kirkjan og stjórnvöld þurfa að taka höndum saman við að vinna að þessu verkefni. Við í Biblíufélaginu erum að búa kirkjurnar undir að taka við læsisverkefninu. Við trúum því að kirkjurnar séu rétti grundvöllurinn til þess að ná til fólks og skipta sköpum fyrir það og undir það tekur prófessor Yolong: „Kirkjurnar munu taka læsisverkefnið alvarlega.“
Verið svo væn að biðja fyrir friði í Suður-Súdan og Guð blessi Shilluk-fólkinu læsisverkefnið, sem getur breytt lífi þess.
Um Edward Kajivora: Edward er fyrsti framkvæmdastjóri Hins suður-súdanska biblíufélags. Hann er menntaður í Bretlandi, nam hebresku Biblíunnar og íslömsk fræði, aðstoðaði við þýðingu Biblíunnar yfir á móðurmál sitt og varð síðar þýðingarráðgjafi í Hinu súdanska biblíufélagi. Hann er kvæntur og er tveggja barna faðir.
Þorgils Hlynur Þorbergsson íslenskaði greinina.