Hið íslenska biblíufélag hefur ráðið Guðmund S. Brynjólfsson djákna og rithöfund sem verkefnastjóra félagsins, en átta sóttu um stöðuna.
Í starfinu mun Guðmundur kynna Biblíuna og menningarleg og trúarleg áhrif hennar í þjóðlífinu, sjá um daglegan rekstur félagsins og útbreiða Orðið. Hann mun halda utan um safnanir fyrir systrafélög í þróunarlöndunum, halda fyrirlestra, sjá um ýmis konar útgáfu til kynningar á ritningunni og annað það sem til fellur og stjórn felur honum.
Guðmundur hefur yfirgripsmikla þekkingu á Biblíunni bæði frá guðfræðilegu og bókmenntafræðilegu sjónarhorni segir í fréttatilkynningu. Guðmundur hefur próf í guðfræði/djáknafræðum, sem og B.A. gráðu og meistarapróf í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Auk meistaraprófs í leiklistarfræðum frá Royal Holloway University of London.
Guðmundur hefur sinnt stundakennslu við bæði Háskóla Íslands og Listaháskóla Íslands og einnig unnið að fræðistörfum á sínum sérsviðum. Hann er höfundur margra bóka og hefur hlotið Íslensku barnabókaverðlaunin og unnið til Grímuverðlauna sem leikskáld.
Guðmundur mun eftir sem áður þjónusta Þorlákshafnarprestakall sem djákni í 50% starfshlutfalli en verkefnastjórastaðan hjá Biblíufélaginu er einnig 50%. Guðmundur hefur þegar tekið til starfa.