Engli safnaðarins í Pergamos skaltu rita:
Þetta segir sá sem hefur sverðið tvíeggjaða og beitta: Ég veit að þú býrð þar sem hásæti Satans er. Samt hefur þú verið mér trúr og ekki afneitað trúnni á mig, jafnvel ekki á dögum Antípasar, míns trúa vottar, sem deyddur var hjá yður þar sem Satan býr. En þó hef ég nokkuð á móti þér. Þú hefur hjá þér menn sem halda fast við kenningu Bíleams, þess er kenndi Balak að tæla Ísraelsmenn svo að þeir neyttu kjöts, sem helgað var skurðgoðum, og drýgðu hór. Þannig hefur þú líka hjá þér menn sem halda fast við kenningu Nikólaíta. Sjá því að þér! Að öðrum kosti kem ég skjótt til þín og mun berjast við þá með sverði munns míns.
Hver sem eyra hefur hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum. Þeim er sigrar mun ég gefa af hinu hulda manna og ég mun gefa honum hvítan stein og á steininn ritað nýtt nafn sem enginn þekkir nema sá er við tekur.

Engli safnaðarins í Þýatíru skaltu rita:
Þetta segir sonur Guðs sem augu hefur eins og eldsloga og fætur líka glómálmi: Ég þekki verkin þín, elsku þína og trú, þjónustu þína og þolgæði og veit að hin síðari verk þín eru meiri en hin fyrri. En það hef ég á móti þér að þú líður Jessabel, konuna sem segist vera spámaður og kennir þjónum mínum, afvegaleiðir þá til að drýgja hór og eta kjöt helgað skurðgoðum. Ég hef gefið henni frest til þess að hún sjái að sér en hún vill ekki bæta ráð sitt og láta af hórdómi sínum. Nú mun ég varpa henni á sóttarsæng og þeim í mikla þrengingu sem hórast með henni ef þeir iðrast ekki og snúa baki við henni. Og áhangendur hennar mun ég deyða og allir söfnuðirnir skulu vita að ég er sá sem rannsakar nýrun og hjörtun og ég mun gjalda yður hverju og einu eftir verkum yðar. En yður hinum í Þýatíru, sem hafið ekki fylgt kenningu þessari og þekkið ekki það sem þeir nefna djúp Satans, segi ég: Aðra byrði legg ég eigi á yður. En haldið fast við það sem þér hafið þangað til ég kem. Þeim er sigrar og varðveitir allt til enda það sem ég geri og kenni mun ég gefa sama vald yfir þjóðunum sem faðirinn gaf mér. Og hann mun stjórna þeim með járnsprota og mola þær eins og leirker eru moluð. Og ég mun gefa honum morgunstjörnuna.
Hver sem eyra hefur hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.