Minningarorð frá Sameinuðu biblíufélögunum
Með djúpri virðingu og djúpri sorg syrgja Sameinuðu biblíufélögin andlát Hans heilagleika Frans páfa. Frans páfi var trúr þjónn fagnaðarerindisins og var spámannleg rödd inn í samfélagið. Frans páfi var maður Biblíunnar. Djúp ást hans á ritningunni mótaði þjónustu hans og var hvatning til milljóna manna um allan heim til að kynnast lifandi orði Guðs. Prédikun hans og vitnisburður voru rótgróin í sannleika fagnaðarerindisins og líf hans endurspeglaði auðmýkt, samúð og hugrekki Krists sjálfs, sem hann fylgdi trúfastlega. Hann var brúarsmiður og var óþreytandi í tilraunum sínum til að auka sátt í sundruðum heimi. Frans páfi opnaði leiðir til samræðna yfir játningar- og trúarleg mörk. Skuldbinding hans við einingu, réttlæti og frið ómaði langt út fyrir veggi kaþólsku kirkjunnar og bauð öllu fólki af góðvild að ganga saman í von.
Hann nálgaðist verkefnið sem hann var kallaður til með opnu hjarta hjarta og útréttar hendur. Hans störf voru vitnisburður um Krist sem kallar okkur til sátta og kærleika.
Frans páfi var vinur Biblíufélaga um heim allan. Hann tók undir það mikilvæga hlutverk að gera Biblíuna aðgengilega öllum og studdi starf Biblíufélaganna af örlæti og með einlægu samstarfi. Hann vék hvergi frá stuðningi sínum við þýðingar á Biblíunni, dreifingu hennar og notkun.
Biblíufélög um allan heim þjóna rómversk-kaþólsku kirkjunni og kaþólskum samfélögum. Þau vinna náið með prestum, biskupum, trúfræðurum og leikmönnum til að tryggja að ritningin sé til staðar, aðgengileg og lifandi í hjörtum hinna trúuðu. Frans páfi fagnaði þessum samstarfsverkefnum og lagði áherslu á að orð Guðs tilheyrir öllum og umbreytir öllum sem kynnast því.
Nú þegar Sameinuðu biblíufélögin gefa þakkir fyrir líf hans og arfleifð, skuldbindum við okkur enn á ný að halda á loft þeim gildum sem Frans páfi stóð fyrir; að hafa ástríðu fyrir orði Guðs, að lifa lífi sem byggir á fagnaðarerindi Krists, að veita þjónustu í auðmýkt, að leita sátta við alla menn, að fagna einingu í fjölbreyttum heimi og að treysta á umbreyttandi kraft Biblíunnar.
Megi Drottinn taka á móti Frans páfa með orðunum: „Vel gert, góði og trúi þjónn“. Megi minning hans vera okkur öllum hvatning og blessun.
Í apríl 2025
Ljósmynd: Frá heimsókn fulltrúa Sameinuðu biblíufélaganna í Vatíkanið til fundar við Frans páfa í febrúar 2023.