Í nýjasta B+ fréttablaði Biblíufélagsins voru lesararnir sem önnuðust lestur á hljóðbók Biblíunnar spurðir nokkurra spurninga. Því miður þurfti að stytta nokkur svaranna til að þau kæmust fyrir í blaðinu. Af þeim sökum birtum við nú svör Ragnheiðar Steindórsdóttur í heild hér á vefnum.

Þekktir þú til Biblíunnar áður en þú tókst þátt í upplestri hennar? (Hafðir þú lesið einhverja hluta hennar eða jafnvel bókina alla?)

Sem ung manneskja las ég Nýja testamentið en þekkti lítið til þess Gamla. Ég las Mósebók og Ljóðaljóðin og forvitni um stöðu konunnar í þessum gömlu ritum leiddi mig í bækur Rutar og Esterar.

Breytti lesturinn einhverju varðandi afstöðu þína til Biblíunnar? (Kom efnið þér á óvart. Lærðir þú eitthvað af lestrinum?)

Það eru nokkur ár síðan við tókum upp lestur á Nýja testamentinu. Ég man ekki til þess að neitt þar hafi komið sérstaklega á óvart. Ég las Opinberunarbók Jóhannesar, sem er dramatískur og skáldlegur texti og Jóhannesarbréfin þrjú, hið fyrsta er almenn predikun en hin tvö eru á persónulegri nótum. Allt eru þetta hugleiðingar um föðurinn og soninn, kærleikann, syndina og nauðsyn þess að þekkja hið góða frá hinu illa. Mér fannst þetta auðskiljanlegt og  gaman að lesa þetta fyrir væntanlega hlustendur.

Er eitthvað þér sérstaklega minnisstætt eftir lesturinn? (Hvað þá helst? Finnst þér þessi forni texti tala á einhvern hátt til samtíma okkar?)

Þegar kom að upptökum úr Gamla testamentinu hafði heimsmyndin tekið stakkaskiptum. Ég las Jósúabók, þar sem Drottinn allsherjar skipar Jósúa að leiða Ísraelslýð yfir Jórdan, hann gefur þeim landið og heitir þeim fulltingi. Ég las líka kroníkubækurnar tvær. Nákvæmar skráningar Jósúabókar á því hvernig landi er skipt milli ættkvísla Ísraels og svo endalausar ættartölur í fyrri kroníkubók ásamt flokkun og talningu á prestum, söngmönnum, hliðvörðum, hermönnum og embættismönnum eru ekki beint skemmtilestur fyrir okkur í nútímanum, seinni kroníkubókin er auðveldari aflestrar, en allt er þetta áhugavert.

Mér leið hins vegar bölvanlega. Drottinn stóð við loforð sín og barðist fyrir Ísrael, hóf sjálfur risabjörg á loft og kastaði niður af himni, felldi miklu fleiri en Ísraelsmenn felldu með sverðum sínum! Dagskipanin var sú að Ísraelsmenn skyldu hrifsa til sín lönd og drepa íbúana! Í fréttum hvers einasta dags í raunheimum bergmálaði svo þessi saga.

Með óbragð í munni heyrði ég sömu örnefnin í útvarpinu og ég var nýbúin að lesa í upptökunum, Ísraelsher nútímans hrekur Palestínumenn á flótta, gjöreyðir heimkynnum þeirra, þar sem þeir hafa búið mann fram af manni, saklausar konur og börn eru skotin og sprengd í loft upp í þúsundatali af ólýsanlegri grimmd. Og Netanyahu leyfir sér meira að segja að vitna í heilaga ritningu til að réttlæta þennan hrylling. Drottinn gaf þeim jú landið fyrir löngu og sagði þeim að drepa óvinina! Og það erfiðasta og sárasta af öllu, – mannskepnan hefur ekkert lært, – heimsbyggðin þegir! Enginn þorir að stöðva þennan skelfilega glæp af ótta við voldugasta guð veraldarinnar, ekki Drottin allsherjar, ekki Allah, – heldur Mammon!