„Við getum ekki gert þetta ein. Við þurfum þinn stuðning og þínar bænir til að geta umbreytt lífi þeirra sem þjást hér á Haítí. “
— Magda N. Victor, framkvæmdastjóri Biblíufélagsins á Haítí.
Jólasöfnun Biblíufélagsins til stuðnings verkefnum á vegum Biblíufélagsins á Haítí gengur vel. Í dag, 3. janúar 2025, höfðu safnast ríflega 550.000 krónur til verkefna á Haítí. Peningarnir sem safnast eru sendir í gegnum greiðslukerfi Sameinuðu biblíufélaganna (United Bible Societies) beint til Port-au-Prince. Greiðslukerfi Sameinuðu biblíufélaganna er gífurlega öflugt og er mikil áhersla lögð á eftirlit og eftirfylgni í tengslum við styrkveitingar á milli landa.
Jólasöfnunin mun standa áfram fram til loka janúar og því enn hægt að styðja við starf Biblíufélagsins á Haiti.
Með þínu fjárframlagi getur þú hjálpað Biblíufélaginu á Haítí til að hjálpa öðrum. Markmiðið er að ná til 200.000 einstaklinga, bjóða námskeið í áfallahjálp (e. Trauma Healing), dreifa Biblíum á kreól og frönsku, gefa barnabiblíur og útvega þeim mat og vatn sem hafa þurft að flýja heimili sín.