„Við getum ekki gert þetta ein. Við þurfum þinn stuðning og þínar bænir til að geta umbreytt lífi þeirra sem þjást hér á Haítí. “
— Magda N. Victor, framkvæmdastjóri Biblíufélagsins á Haítí.
Ástandið á Haítí er grafalvarlegt nú þegar glæpagengi hafa tekið stjórnina víða í landinu. Biblíufélagið á Haítí hefur leitað m.a. til Hins íslenska biblíufélags um tímabundna aðstoð í skelfilegum aðstæðum.
Ríflega 578,000 einstaklingar hafa tapað öllum eigum sínum. Meira en 80% af höfuðborginni, Port-au-Prince, er undir stjórn vopnaðra glæpagengja og neyðarástand ríkir hvarvetna í landinu. Fjölskyldur hafa verið neyddar til að flýja heimili sín og leita hjálpar í neyðarskýlum, skólum og kirkjum. Íbúa skortir mat, vatn og von um betri framtíð.
Með þínu fjárframlagi getur þú hjálpað Biblíufélaginu á Haítí til að hjálpa öðrum. Markmiðið er að ná til 200.000 einstaklinga, bjóða námskeið í áfallahjálp (e. Trauma Healing), dreifa Biblíum á kreól og frönsku, gefa barnabiblíur og útvega þeim mat og vatn sem hafa þurft að flýja heimili sín.