Líkt og undanfarin ár sendir Hið íslenska biblíufélag í desember valgreiðsluseðil að upphæð 25.000 krónur á stærri söfnuði, kirkjur og trúfélög. Árið í ár hefur verið viðburðaríkt fyrir Biblíufélagið og ber þar hæst útgáfa hljóðbókar Biblíunnar. Þá hefur Biblíufélagið lagt áherslu á að vera sýnilegt á samfélagsmiðlum og birtir Biblíuvers daglega á x.com, Facebook og Instagram. Hægt er að fá daglegan Biblíulestur í tölvupósti og þá er Orð kvöldsins birt daglega á helstu hlaðvarpsveitum, svo dæmi sé tekið.

Framundan er útgáfa á nýju og einföldu Biblíuappi, þar sem þægilegt er að lesa Biblíutextann og/eða hlusta á hljóðbók Biblíunnar. Um er að ræða mun einfaldara app en Biblíuapp Youversion sem Biblíufélagið hefur stutt við undanfarin ár og mun ekki endilega koma í staðinn fyrir það, heldur bjóða upp á einfaldan valkost sem gæti hentað einhverjum.

Útgáfa á prentuðum Biblíum mun jafnframt halda áfram og í skoðun er endurútgáfa á Biblíunni fyrir lesbretti og spjaldtölvur.

Önnur stór verkefni verða síðan kynnt á komandi ári. Allt kostar þetta mikla peninga og því leitar félagið til safnaða, kirkna og trúfélaga í desember um að hjálpa okkur til að halda þessu mikilvæga starfi áfram.