Vísast hefur hann þess vegna orðið viðskila við þig um stundarsakir, að þú síðan skyldir fá að halda honum eilíflega, ekki lengur eins og þræli heldur þræli fremri, eins og elskuðum bróður. Mér er hann kær bróðir. Hve miklu fremur þó þér bæði sem maður og kristinn. Ef þú því telur mig bróður þinn í trúnni, þá tak þú á móti honum eins og væri það ég sjálfur. En hafi hann eitthvað gert á hluta þinn eða sé hann í skuld við þig, þá fær þú það mér til reiknings. Ég, Páll, rita með eigin hendi: Ég mun greiða. Að ég ekki nefni við þig að þú ert jafnvel í skuld við mig um sjálfan þig. Já, bróðir, unn mér gagns af þér vegna Drottins, endurnær hjarta mitt sakir Krists.
Fullviss um hlýðni þína rita ég til þín og veit að þú munt gera jafnvel fram yfir það sem ég mælist til.
En hafðu líka til gestaherbergi handa mér því að ég vona að þið öðlist þá bænheyrslu að fá mig aftur.
Epafras, sambandingi minn vegna Krists Jesú, biður að heilsa þér. Sömuleiðis Markús, Aristarkus, Demas og Lúkas, samverkamenn mínir.
Náðin Drottins vors Jesú Krists sé með anda yðar.