Um Dan sagði hann:
Dan er ljónshvolpur
sem kemur stökkvandi frá Basan.
Um Naftalí sagði hann:
Naftalí er saddur af velvild,
mettaður af blessun Drottins.
Hann skal hljóta vatnið og Suðurlandið.
Um Asser sagði hann:
Asser sé blessaður umfram hina synina,
hann sé eftirlæti bræðra sinna
og laugi fót sinn olíu.
Slagbrandar þínir skulu vera úr járni og eir,
afl þitt endist þér alla ævi.
Enginn er sem Guð Jesjúrúns
sem ríður yfir himininn þér til hjálpar
og á skýjum í hátign sinni.
Hæli er hinn eldforni Guð,
hér neðra eru eilífir armar hans.
Hann stökkti fjandmönnum undan þér
og sagði: „Eyð þeim.“
Síðan bjó Ísrael óhultur,
lind Jakobs ein sér
í landi auðugu af korni og víni
þar sem himinninn lætur dögg drjúpa.
Heill þér, Ísrael. Hver er sem þú?
Þjóðin sem Drottinn frelsaði.
Hann er skjöldurinn sem ver þig,
sverðið sem veitir þér sigur.
Fjandmenn þínir munu skríða fyrir þér,
þú munt traðka á baki þeirra.