Drottinn sagði við Móse:
„Nú leggst þú til hvíldar hjá forfeðrum þínum. Þá mun þetta fólk gera uppreisn. Það mun taka fram hjá með því að elta hina framandi guði í landinu sem það heldur nú inn í. Það mun yfirgefa mig og rjúfa sáttmála minn sem ég gerði við það.
Á þeim degi mun heift mín blossa upp gegn því. Ég mun yfirgefa það og hylja auglit mitt fyrir því og þá verður það auðveld bráð. Margs kyns böl og þrengingar munu hremma það. Á þeim degi mun fólkið spyrja: Er þetta böl komið yfir mig af því að Guð minn er ekki með mér?
En á þeim degi mun ég hylja auglit mitt sakir alls hins illa sem það gerði með því að snúa sér að öðrum guðum.
Skrifið því upp þetta ljóð og kennið það Ísraelsmönnum. Leggið það þeim í munn svo að þetta ljóð verði vitni mitt gegn Ísraelsmönnum. Þegar ég hef leitt þetta fólk inn í landið sem ég hét feðrum þess, landið sem flýtur í mjólk og hunangi, mun það eta nægju sína og fitna. Þá mun það snúa sér að öðrum guðum og þjóna þeim en mér mun það hafna og rjúfa sáttmála minn. Þegar margs kyns böl og þrengingar hremma það mun ljóð þetta bera vitni gegn þessu fólki því að það mun ekki gleymast, það mun geymast í munni niðja þess. Ég veit hvert hugur þess hneigist nú þegar, áður en ég leiði það inn í landið sem ég hét því.“
Sama dag ritaði Móse upp ljóð þetta og kenndi það Ísraelsmönnum.
Síðan skipaði Drottinn Jósúa Núnsson í embætti sitt og sagði: „Vertu styrkur og djarfur því að þú átt að leiða Ísraelsmenn inn í landið sem ég hét þeim. Ég verð með þér.“ Þegar Móse hafði lokið við að skrá sérhvert ákvæði þessa lögmáls á bók bauð hann Levítunum sem báru örk sáttmála Drottins og sagði: „Takið við þessari lögbók og leggið hana við hliðina á örk sáttmála Drottins, Guðs ykkar. Þar skal hún vera vitni gegn ykkur. Ég þekki svo sannarlega mótþróa þinn og þrjósku. Þið hafið óhlýðnast Drottni nú í dag á meðan ég er enn á lífi og hjá ykkur. Hvað verður þá að mér látnum? Stefnið nú til mín öllum öldungum ættbálka ykkar og skrifurum. Ég ætla að flytja þeim þessi orð og kveðja himin og jörð til vitnis gegn þeim því að ég veit að eftir dauða minn munuð þið gerspillast og víkja af þeim vegi sem ég hef boðið ykkur. Síðar mun ógæfan koma yfir ykkur af því að þið gerið það sem illt er í augum Drottins og vekið reiði hans með athæfi ykkar.“