Síðan gekk Móse fram og flutti öllum Ísrael þessa ræðu og sagði:
„Ég er nú orðinn hundrað og tuttugu ára og get ekki lengur farið fyrir ykkur og Drottinn hefur sagt við mig: Þú munt ekki komast yfir Jórdan. Drottinn, Guð þinn, mun sjálfur fara fyrir ykkur. Hann mun tortíma þessum þjóðum frammi fyrir þér svo að þú getir tekið lönd þeirra til eignar. Jósúa mun fara yfir í broddi fylkingar eins og Drottinn hefur sagt. Drottinn mun fara með þjóðirnar eins og hann fór með Síhon og Óg, konunga Amoríta, og land þeirra þegar hann eyddi þeim. Drottinn mun selja þessar þjóðir ykkur á vald og þið skuluð fara með þær nákvæmlega eftir þeim fyrirmælum sem ég hef sett ykkur. Verið djarfir og hughraustir, óttist ekki og skelfist ekki frammi fyrir þeim því að Drottinn, Guð þinn, fer sjálfur með þér. Hann mun hvorki bregðast þér né yfirgefa þig.“
Móse kallaði því næst á Jósúa og sagði við hann frammi fyrir öllum Ísrael: „Vertu djarfur og hughraustur. Þú átt að leiða þetta fólk inn í landið sem Drottinn hét feðrum þess að gefa því og þú átt að skipta landinu á milli þeirra í erfðahluti. Drottinn fer sjálfur fyrir þér, hann verður með þér. Hann mun hvorki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig. Óttastu ekki og láttu ekki hugfallast.“
Móse skráði þetta lögmál og fékk það prestunum, niðjum Leví, sem báru sáttmálsörk Drottins, og öllum öldungum Ísraels. Því næst gaf Móse þeim þessi fyrirmæli: „Sjöunda hvert ár, árið sem skuldir eru felldar niður, á laufskálahátíðinni þegar allur Ísrael kemur til að sjá auglit Drottins, Guðs þíns, á staðnum sem hann velur, þá skaltu flytja þessi lög fyrir allan Ísrael. Stefndu fólkinu saman, bæði körlum, konum og börnum ásamt aðkomumönnunum innan borgarhliða þinna, til þess að þeir hlusti á þau og læri þau, óttist Drottin, Guð ykkar, og gæti þess að framfylgja öllum ákvæðum þessara laga. Börn þeirra, sem þekkja ekki lögin enn þá, skulu hlýða á og læra að óttast Drottin. Þetta skuluð þið gera svo lengi sem þið lifið í landinu sem þið haldið nú inn í yfir Jórdan til þess að taka það til eignar.“
Drottinn sagði við Móse:
„Dagar þínir eru brátt taldir. Kallaðu nú á Jósúa og gangið inn í samfundatjaldið því að ég mun setja hann í embættið.“ Móse fór þá ásamt Jósúa og þeir tóku sér stöðu í samfundatjaldinu. Þá birtist Drottinn í skýstólpa í tjaldinu og skýstólpinn nam staðar við tjalddyrnar.