Allar þessar bölvanir munu fram við þig koma. Þær munu elta þig og hrína á þér þar til þér hefur verið tortímt af því að þú hlýddir ekki boði Drottins, Guðs þíns, og hélst ekki fyrirmæli hans og lög sem hann hefur sett þér. Þær skulu ævinlega fylgja þér og niðjum þínum sem tákn og stórmerki.
Af því að þú hefur ekki þjónað Drottni, Guði þínum, með gleði og með fögnuð í hjarta af því að þú hafðir allsnægtir verður þú að þjóna fjandmönnum þínum sem Drottinn sendir gegn þér. Þú mátt þola hungur, þorsta og klæðleysi og fara alls á mis. Drottinn leggur járnok á háls þér uns hann hefur gereytt þér. Drottinn mun stefna gegn þér þjóð frá fjarlægu landi, frá endimörkum jarðar, sem steypir sér yfir þig eins og örn, þjóð sem talar mál sem þú skilur ekki, hörkulega þjóð ásýndum sem hvorki skeytir um öldunginn né vægir unglingnum. Þessi þjóð etur upp ávöxt búfjár þíns og ávöxt akurs þíns þar til þér hefur verið gereytt. Hún skilur hvorki eftir handa þér korn, vín, olíu né kálfa nauta þinna né lömb sauðfjár þíns fyrr en hún hefur afmáð þig. Hún sest um þig í öllum borgum þínum uns hinir háu og rammgerðu múrar þínir, sem þú treystir á, eru fallnir alls staðar í landi þínu. Hún sest um þig í öllum borgum landsins sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér. Svo nærri þér mun umsátrið ganga og hörmungarnar, sem fjandmaður þinn leiðir yfir þig, að þú munt leggja þér til munns ávöxt kviðar þíns, hold sona þinna og dætra sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér. Jafnvel sá blíðlyndasti og sællífasti meðal þín mun sjá eftir fæðu handa bróður sínum, konunni í faðmi sínum og börnunum sem hann enn á eftir. Hann tímir ekki að gefa neinu þeirra neitt af holdi barna sinna, sem hann leggur sér til munns, af því að það er það eina sem hann á í umsátrinu og neyðinni sem fjandmaður þinn veldur þér í öllum borgum þínum. Hin blíðlyndasta og sællífasta kona meðal þín, sem er svo tepruleg að hún reynir ekki að tylla tá á jörðina, lítur illu auga til mannsins í faðmi sínum, sonar síns og dóttur og sér eftir fylgjunni, sem út gengur af skauti hennar, og börnunum, sem hún elur, því að hún etur þau sjálf á laun enda allar bjargir bannaðar. Slík verður neyðin í umsátrinu þegar fjandmaður þinn þrengir að þér í öllum borgum þínum.