Ef þú hlýðir nákvæmlega boði Drottins, Guðs þíns, heldur það og ferð að öllum fyrirmælum sem ég set þér í dag mun Drottinn, Guð þinn, hefja þig yfir allar þjóðir á jörðinni. Þá munu allar þessar blessanir koma fram við þig og rætast á þér ef þú hlýðir boði Drottins, Guðs þíns:
Blessaður ert þú í borginni og blessaður ert þú á akrinum.
Blessaður er ávöxtur kviðar þíns og ávöxtur akurlands þíns og ávöxtur búfjár þíns, kálfar nauta þinna og lömb sauðfjár þíns.
Blessuð er karfa þín og deigtrog.
Blessaður ert þú þegar þú kemur heim og blessaður ert þú þegar þú gengur út.
Drottinn sigrar þá fjandmenn þína sem ráðast gegn þér. Um einn veg halda þeir gegn þér en um sjö vegu munu þeir flýja undan þér.
Drottinn býður blessuninni að vera með þér í hlöðum þínum og í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur. Hann blessar þig í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér. Drottinn mun hefja þig til að gera þig að heilagri þjóð sinni eins og hann hefur heitið þér ef þú heldur boð Drottins, Guðs þíns, og gengur á hans vegum. Þá munu allar þjóðir jarðar skilja að þú ert kennd við nafn Drottins og þær munu óttast þig. Drottinn veitir þér ríkuleg gæði í ávexti kviðar þíns, í ávexti búfjár þíns og í ávexti jarðar þinnar í landinu sem Drottinn hét feðrum þínum að gefa þér. Drottinn mun ljúka upp fyrir þér hinu góða forðabúri sínu, himninum, til að gefa landi þínu regn á réttum tíma. Hann mun blessa hvert það verk sem þú tekur þér fyrir hendur og þú munt lána mörgum þjóðum en sjálfur muntu aldrei þurfa að taka lán. Drottinn gerir þig að höfði en ekki hala. Þú skalt ætíð hafa betur og aldrei verða undir ef þú hlýðir boðum Drottins, Guðs þíns, sem ég legg fyrir þig í dag, og breytir eftir þeim og víkur hvorki til hægri né vinstri frá neinum þeim fyrirmælum, sem ég legg fyrir ykkur í dag, til þess að elta aðra guði og þjóna þeim.