Og þess vegna þakka ég líka Guði án afláts því að þegar þið veittuð viðtöku orði Guðs, sem ég boðaði, þá tókuð þið ekki við því sem manna orði heldur sem Guðs orði – eins og það í sannleika er og það sýnir kraft sinn í ykkur sem trúið. Þið hafið, systkin, tekið ykkur til fyrirmyndar söfnuði Guðs í Júdeu sem eru í Kristi Jesú. Því að þið hafið þolað hið sama af löndum ykkar sem þeir urðu að þola af Gyðingum er bæði líflétu Drottin Jesú og spámennina og hafa ofsótt okkur. Þeir eru Guði eigi þóknanlegir og öllum mönnum mótsnúnir. Þeir vilja meina mér að tala til heiðingjanna til þess að þeir megi verða hólpnir. Þannig fylla þeir stöðugt mæli synda sinna. En reiðin er þá líka yfir þá komin um síðir.
En ég, bræður og systur, sem um stundarsakir hef verið skilinn frá ykkur að líkamanum til en ekki huganum, hef þráð ykkur mjög og gert mér allt far um að fá að sjá ykkur aftur. Þess vegna ætlaði ég að koma til ykkar, ég, Páll, oftar en einu sinni en Satan hefur hamlað því. Hver er von mín eða gleði eða sigursveigurinn sem ég miklast af? Eruð það ekki einmitt þið, frammi fyrir Drottni vorum Jesú við komu hans? Já, þið eruð vegsemd mín og gleði.