Ef maður gengur að eiga konu og samrekkir henni en fær þá óbeit á henni, sakar hana um skammarlegt athæfi, spillir mannorði hennar og segir: „Ég kvæntist þessari konu en þegar ég nálgaðist hana fann ég ekki meydómsmerki hjá henni,“ þá skulu faðir stúlkunnar og móðir taka sönnunargagn um meydóm hennar og fara með það til öldunga borgarinnar, á þingstaðinn í borgarhliðinu. Faðir stúlkunnar skal segja við öldungana: „Ég gaf þessum manni dóttur mína fyrir eiginkonu en hann hefur óbeit á henni. Hann sakar hana um skammarlegt athæfi og spillir mannorði hennar og segir: Ég fann ekki meydómsmerki hjá dóttur þinni. En hér er sönnunin fyrir meydómi dóttur minnar.“ Því næst skulu þau breiða út rekkjuvoðina í augsýn öldunga borgarinnar. Þá skulu öldungar borgarinnar taka manninn og refsa honum. Þeir skulu sekta hann um hundrað sikla silfurs og afhenda föður stúlkunnar þá því að þessi maður hefur spillt mannorði óspjallaðrar meyjar í Ísrael. Hún skal vera eiginkona hans framvegis og honum skal ekki heimilt að skilja við hana alla ævi sína.
En reynist ásökunin rétt og engin sönnunargögn fyrir meydómi stúlkunnar finnast skal færa stúlkuna að húsdyrum föður hennar. Þá skulu íbúar heimaborgar hennar grýta hana í hel því að hún hefur framið svívirðingu í Ísrael með því að hórast í föðurgarði. Þú skalt uppræta hið illa þín á meðal. Ef maður er staðinn að því að liggja með eiginkonu annars manns skulu bæði tekin af lífi, maðurinn sem lá hjá konunni og konan sjálf. Þú skalt eyða hinu illa úr Ísrael. Ef óspjölluð mey er föstnuð manni og einhver annar hittir hana í borginni og leggst með henni skuluð þið færa þau bæði að borgarhliðinu og grýta þau í hel, stúlkuna af því að hún hrópaði ekki á hjálp í borginni og manninn af því að hann spjallaði konu náunga síns. Þú skalt eyða hinu illa þín á meðal. Ef maðurinn hittir föstnuðu stúlkuna úti á víðavangi, tekur hana með valdi og leggst með henni skal maðurinn, sem lagðist með henni, einn deyja. Þú skalt ekki gera stúlkunni neitt, hún hefur ekkert gert sem varðar dauðasök. Þetta mál er áþekkt því að maður ráðist á annan og myrði hann. Þar sem hann hitti stúlkuna úti á víðavangi kann fastnaða stúlkan að hafa hrópað á hjálp en enginn verið þar til að hjálpa henni.