Þannig skaltu fara með allar þær borgir sem eru mjög fjarlægar þér og eru ekki meðal þeirra borga sem þjóðirnar hér ráða yfir.
En þú skalt ekki láta neitt, sem lífsanda dregur, lífi halda í borgum þjóðanna sem Drottinn, Guð þinn, fær þér að erfðahlut. Þú skalt helga þessar þjóðir banni: Hetíta, Amoríta, Kanverja, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta eins og Drottinn, Guð þinn, hefur fyrir þig lagt, því að þær mega ekki fá ykkur til að syndga gegn Drottni, Guði ykkar, með því að kenna ykkur að stunda þær svívirðingar sem þær fremja þegar þær dýrka guði sína. Þegar þú situr um borg í langan tíma og herjar á hana til þess að vinna hana skaltu ekki spilla trjám borgarinnar eða skaða þau með því að bera að þeim öxi. Af því að þú mátt neyta ávaxta af þeim skaltu ekki fella þau. Eru trén á mörkinni menn svo að þú verðir að sitja um þau?
En trjám, sem þú veist að ekki bera æta ávexti, máttu spilla. Þau máttu höggva og byggja úr þeim hervirki til umsáturs gegn borginni sem á í orrustu við þig þar til hún fellur.
Finnist maður myrtur úti á víðavangi í landi þínu sem Drottinn, Guð þinn, fær þér til þess að þú takir það til eignar og enginn veit hver myrti hann, skulu öldungar þínir og dómarar fara út og mæla fjarlægðina til borganna sem eru umhverfis hinn myrta. Þá skulu öldungarnir í þeirri borg, sem er næst hinum myrta, velja sér kvígu sem hefur ekki enn verið höfð til vinnu, kvígu sem hefur ekki enn gengið undir oki. Síðan skulu öldungar borgarinnar leiða kvíguna niður í dal með þurrum árfarvegi þar sem hvorki hefur verið plægt né sáð. Þarna í dalverpinu skulu þeir hálsbrjóta kvíguna. Þá skulu prestarnir, niðjar Leví, ganga fram því að þá hefur Drottinn, Guð þinn, valið til þess að þjóna sér og blessa í nafni Drottins. Skorið skal úr öllum deilumálum og málum vegna líkamsmeiðinga með úrskurði þeirra. Þá skulu öldungar þeirrar borgar, sem næst er hinum myrta, þvo hendur sínar yfir kvígunni sem hálsbrotin var þarna í dalverpinu.
Síðan skulu þeir taka til máls og segja: „Hendur okkar hafa ekki úthellt þessu blóði og augu okkar hafa ekki séð því úthellt. Drottinn, fyrirgef lýð þínum, Ísrael, sem þú leystir. Og lát þú ekki sekt vegna þessa saklausa blóðs vera hjá lýð þínum, Ísrael.“ Þar með er þeim blóðsökin fyrirgefin.
Þú skalt hreinsa þig af saklausu blóði sem úthellt var hjá þér með því að gera það sem rétt er í augum Drottins.