Ég vildi að þið umbæruð dálitla fávisku hjá mér. Vissulega gerið þið það. Ég vakti yfir ykkur með afbrýði eins og Guð því að ég hef fastnað ykkur einum manni, Kristi, og vil leiða fram fyrir hann hreina mey. En ég er hræddur um að eins og höggormurinn tældi Evu með flærð sinni, svo kunni og hugsanir ykkar að spillast og leiðast burt frá einlægri og hreinni tryggð við Krist. Því að ef einhver kemur og prédikar annan Jesú en ég hef prédikað eða þið fáið annan anda en þið hafið fengið eða annað fagnaðarerindi en þið hafið tekið á móti, þá umberið þið það mætavel.
Ég álít mig þó ekki í neinu standa hinum stórmiklu postulum að baki. Þótt mig bresti mælsku brestur mig samt ekki þekkingu og við höfum á allan hátt birt ykkur hana í öllum greinum.
Eða drýgði ég synd þegar ég boðaði ykkur fagnaðarerindið ókeypis og gerði lítið úr sjálfum mér til þess að það mætti upphefja ykkur? Aðra söfnuði rúði ég og tók mála af þeim til þess að geta þjónað ykkur og er ég var hjá ykkur og leið þröng varð ég þó ekki neinum til byrði því að úr skorti mínum bættu bræðurnir er komu frá Makedóníu. Og í öllu varaðist ég að verða ykkur til þyngsla og mun varast. Svo sannarlega sem sannleiki Krists býr í mér, enginn í héruðum Akkeu skal geta fengið mig til að hætta að hrósa mér af þessu. Hvers vegna? Er það af því að ég elska ykkur ekki? Nei, Guð veit að ég geri það.