En þökk sé Guði sem vakti í hjarta Títusar þessa sömu umhyggju fyrir ykkur og ég hef. Hann varð ekki aðeins við áskorun minni heldur var áhugi hans svo mikill að hann ákvað að fara af eigin hvötum. Með honum sendi ég þann bróður sem orð fer af í öllum söfnuðunum fyrir starf hans í þjónustu fagnaðarerindisins. Og ekki það eitt heldur hefur söfnuðurinn kjörið hann til að vera samferðamaður minn með gjöf þessa sem ég hef látið safna Drottni til dýrðar og til að sýna fúsleika minn. Ég hef viljað komast hjá því að nokkur gæti sett út á meðferð mína á hinni miklu gjöf sem ég hef gengist fyrir. Því að ég leitaðist við að ástunda það sem gott er, ekki aðeins í augum Drottins heldur og í augum manna. Með þeim sendi ég annan bróður, sem ég oftsinnis og í mörgu hef reynt kostgæfinn, en nú miklu fremur en ella vegna hans mikla trausts til ykkar. Títus er félagi minn og starfsbróðir hjá ykkur og hinir eru bræður okkar og sendiboðar safnaðanna og eru Kristi til vegsemdar. Sýnið þeim því merki elsku ykkar og ástæðuna fyrir að ég hrósaði ykkur. Þá verður söfnuðunum það ljóst.
Um hjálpina til hinna heilögu er sem sé óþarft fyrir mig að skrifa ykkur því að ég þekki góðan vilja ykkar og hrósa mér af ykkur meðal Makedóna og segi að Akkea hefur verið reiðubúin síðan í fyrra. Áhugi ykkar hefur verið hvatning fyrir fjöldamarga. En bræðurna hef ég sent til þess að hrós okkar um ykkur skyldi ekki reynast fánýtt í þessu efni. Ég sagði að þið væruð tilbúin. Annars gæti svo farið að ég – að ég ekki segi þið – þyrfti að bera kinnroða fyrir þetta traust ef Makedónar skyldu koma með mér og finna ykkur óviðbúin. Ég taldi því nauðsynlegt að biðja bræðurna að fara á undan til ykkar og undirbúa þá gjöf ykkar sem heitin var áður svo að hún mætti vera á reiðum höndum eins og blessun en ekki eins og dregin undan nöglum ykkar.