En svo vil ég, bræður mínir og systur, skýra ykkur frá þeirri náð sem Guð hefur sýnt söfnuðunum í Makedóníu. Þrátt fyrir þær miklu þrengingar sem þeir hafa orðið að reyna hefur hin ríka gleði þeirra leitt í ljós hve örlátir þeir eru þrátt fyrir sára fátækt. Ég get vottað það hversu þeir hafa gefið eftir efnum, já, umfram efni sín. Af eigin hvötum lögðu þeir fast að mér og báðu um að mega taka þátt í samskotunum til hinna heilögu. Og þeir gerðu betur en ég hafði vonað, þeir gáfu sjálfa sig, fyrst og fremst Drottni og síðan mér að vilja Guðs. Það varð til þess að ég bað Títus að hann skyldi og leiða til lykta hjá ykkur þessa gjöf eins og hann hefur byrjað. Þið skarið fram úr í öllu, í trú, í mælsku og þekkingu, í allri alúð og í elsku ykkar sem ég hef vakið. Þannig skuluð þið skara fram úr í þessari gjöf.
Ég segi þetta ekki sem skipun heldur er ég að ganga úr skugga um hvort kærleiki ykkar sé einlægur samanborið við ósérplægni annarra. Þið þekkið náð Drottins vors Jesú Krists. Hann gerðist fátækur ykkar vegna, þótt ríkur væri, til þess að þið auðguðust af fátækt hans.
Ég vil gefa ykkur ráð í þessu máli. Ég tel það vera ykkur til gagns að taka þátt í samskotunum. Í fyrra ákváðuð þið það og voruð þegar farin að hefjast handa. Ljúkið nú við það og sýnið viljann í verki og gefið það sem efnin leyfa. Því að ef viljinn er góður þá er hver metinn eftir því sem hann á og ekki eftir því sem hann á ekki til. Ekki svo að þrengt sé að ykkur til þess að aðrir hafi það gott heldur er það til þess að jöfnuður verði. Nú sem stendur bætir gnægð ykkar úr skorti hinna til þess að einnig gnægð hinna geti bætt úr skorti ykkar og þannig verði jöfnuður eins og skrifað er:
Sá sem miklu safnaði hafði ekki afgangs
og þann skorti ekki sem litlu safnaði.