Reynist þér um megn að dæma eitthvert mál, hvort sem það er vegna blóðsúthellinga, persónulegra deilna eða líkamsárásar eða einhvers annars deilumáls sem upp kemur í heimaborg þinni, skaltu halda til staðarins sem Drottinn, Guð þinn, velur sér. Þú skalt ganga fyrir Levítaprestana og dómarann sem þá gegnir embætti og spyrja þá ráða. Þeir munu kveða upp dóm í málinu og þú skalt framfylgja dóminum sem þeir kveða upp á staðnum sem Drottinn velur. Þú skalt gæta þess að fara að öllu eftir leiðbeiningum þeirra. Þú skalt fara eftir fyrirmælunum, sem þeir gefa þér, og úrskurðinum, sem þeir fella, og hvorki víkja til hægri né vinstri frá þeim dómi sem þeir kveða upp fyrir þig.
En sýni einhver þá ofdirfsku að hlusta hvorki á prestinn, sem stendur þarna til að þjóna Drottni, Guði þínum, né dómarann, skal hann deyja. Þú skalt eyða hinu illa úr Ísrael. Öll þjóðin skal frétta þetta svo að hún fyllist ótta og sýni ekki ofdirfsku framar.
Þegar þú ert kominn inn í landið sem Drottinn, Guð þinn, fær þér og hefur tekið það til eignar og komið þér þar fyrir og segir: „Ég vil taka mér konung eins og þjóðirnar umhverfis,“ þá máttu svo sannarlega taka þér konung sem Drottinn, Guð þinn, velur. Þú mátt aðeins taka einhvern af bræðrum þínum til konungs. Þú mátt ekki setja yfir þig erlendan mann því að hann er ekki bróðir þinn.
Samt má konungurinn ekki afla sér of margra hesta eða leiða þjóðina aftur til Egyptalands til að afla sér fleiri hesta því að Drottinn hefur sagt við ykkur: „Þið skuluð aldrei aftur snúa þessa leið.“
Hann má ekki heldur taka sér of margar konur svo að hjarta hans víki ekki af réttri leið.
Hann má ekki heldur draga saman of mikið af gulli og silfri.
Þegar hann er sestur í sitt konunglega hásæti skal hann láta gera afrit á bók af þessum lögum sem Levítaprestarnir varðveita. Bókin skal vera hjá honum og hann lesa hana alla ævidaga sína svo að hann læri að óttast Drottin, Guð sinn, og haldi öll fyrirmæli og ákvæði þessa lögmáls og breyti eftir þeim svo að hann ofmetnist ekki gagnvart ættbræðrum sínum og víki hvorki til hægri né vinstri frá boðinu og hann og synir hans ráði lengi ríkjum í Ísrael.