Þú skalt skipa dómara og eftirlitsmenn fyrir ættbálka þína í öllum borgunum sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér. Þeir eiga að stjórna fólkinu og dæma réttlátlega.
Þú skalt ekki halla réttinum. Þú skalt ekki sýna hlutdrægni. Þú skalt ekki þiggja mútur því að mútur blinda augu hins vitra og afbaka mál þeirra sem hafa á réttu að standa. Réttlætinu einu skalt þú framfylgja svo að þú megir lifa og taka landið til eignar sem Drottinn, Guð þinn, fær þér.
Þú skalt ekki gróðursetja neins konar tré sem Asérustólpa við hliðina á altari Drottins, Guðs þíns, sem þú reisir. Þú skalt ekki setja upp neinn merkistein sem Drottinn, Guð þinn, hatar.
Þú skalt ekki fórna Drottni, Guði þínum, nauti eða lambi sem hefur eitthvert lýti eða galla því að það er Drottni, Guði þínum, viðurstyggð.
Finnist hjá þér í einhverri af borgunum, sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér, karl eða kona sem gerir það sem illt er í augum Drottins, Guðs þíns, með því að rjúfa sáttmálann við hann, og fari og þjóni öðrum guðum gegn boðum mínum og sýni þeim lotningu, sólinni, tunglinu eða öllum himinsins her og þú verðir þessa vísari, skaltu rannsaka það gaumgæfilega. Reynist rétt vera að slík svívirða hafi verið framin í Ísrael skaltu leiða þann karl eða þá konu, sem hefur framið þetta ódæði, að borgarhliði þínu og grýta þar í hel, hvort sem það er karl eða kona.
Eftir framburði tveggja eða þriggja vitna skal fullnægja dauðadómi. Enginn skal líflátinn vegna framburðar eins vitnis. Vitnin skulu vera fyrst til að leggja hönd á hinn dauðadæmda til að lífláta hann og síðan fólkið allt. Þú skalt uppræta hið illa sem finnst þín á meðal.