Og nú, Ísrael, hvers krefst Drottinn, Guð þinn, annars af þér en að þú óttist Drottin, Guð þinn, gangir á öllum vegum hans og elskir hann, að þú þjónir Drottni, Guði þínum, af öllu hjarta þínu og allri sálu þinni og haldir boð Drottins og lög sem ég set þér í dag svo að þér vegni vel?
Sjá, Drottni, Guði þínum, heyrir himinninn og himnanna himinn og jörðin og allt sem á henni er. Eigi að síður beindist kærleikur Drottins að feðrum þínum einum svo að hann elskaði þá. Síðan valdi hann ykkur, niðja þeirra, úr öllum þjóðum og er svo enn í dag.
Umskerið því forhúð hjartna ykkar og verið ekki framar harðsvíruð. Því að Drottinn, Guð ykkar, er Guð guðanna og Drottinn drottnanna. Hann er hinn mikli Guð, hetjan og ógnvaldurinn, sem gerir sér engan mannamun og þiggur ekki mútur. Hann rekur réttar munaðarleysingjans og ekkjunnar og sýnir aðkomumanninum kærleika og gefur honum fæði og klæði. Þið skuluð því sjálfir elska aðkomumanninn því að þið voruð sjálfir aðkomumenn í Egyptalandi.
Þú skalt óttast Drottin, Guð þinn. Þú skalt þjóna honum, vera honum trúr og sverja við nafn hans. Hann er þinn lofsöngur og hann er þinn Guð sem hefur unnið fyrir þig öll þessi miklu og ógnvekjandi verk sem þú hefur séð með eigin augum.
Þegar forfeður þínir héldu niður til Egyptalands voru þeir sjötíu að tölu en nú hefur Drottinn, Guð þinn, gert þig að fjölda til sem stjörnur himins.