Þá veitti Móse þremur borgum austan við Jórdan sérstöðu. Til þeirra gat hver sá flúið og haldið lífi sem án ásetnings varð manni að bana og hafði ekki sýnt honum fjandskap áður. Borgirnar voru Beser á hásléttunni í eyðimörkinni fyrir niðja Rúbens, Ramót í Gíleað fyrir Gað og Gólan í Basan fyrir Manasse.
Þetta er lögmálið sem Móse lagði fyrir Ísraelsmenn. Þetta eru þau fyrirmæli, lög og ákvæði sem Móse boðaði Ísraelsmönnum þegar þeir fóru út úr Egyptalandi og voru handan Jórdanar í dalnum gegnt Bet Peór, í landi Síhons Amorítakonungs sem ríkti í Hesbon. Móse og Ísraelsmenn höfðu fellt hann þegar þeir fóru út úr Egyptalandi. Þá höfðu þeir tekið land hans til eignar ásamt landi Ógs, konungs í Basan. Þeir höfðu slegið eign sinni á land hans og land Ógs, konungs í Basan, land beggja konunga Amoríta austan við Jórdan, landið frá Aróer, sem liggur í jaðri Arnondalsins, allt að Síonarfjalllendi, það er Hermon, og allt Arabaláglendið austan við Jórdan, að Arabavatninu undir Pisgahlíðum.