Hlýðið nú, Ísraelsmenn, á lögin og ákvæðin sem ég kenni ykkur. Fylgið þeim svo að þið haldið lífi og komist inn í landið sem Drottinn, Guð feðra ykkar, fær ykkur til eignar.
Engu megið þið bæta við það sem ég býð ykkur og engu sleppa heldur skuluð þið halda boð Drottins, Guðs ykkar, sem ég set ykkur.
Þið hafið séð með eigin augum hvað Drottinn gerði vegna Baal Peórs. Drottinn, Guð ykkar, upprætti hvern þann úr samfélagi ykkar sem fylgdi Baal Peór. En þið sem hélduð ykkur fast við Drottin, Guð ykkar, eruð öll á lífi enn í dag.
Sjá! Eins og Drottinn, Guð hefur falið mér kenni ég ykkur lög og ákvæði sem þið skuluð fara eftir í landinu sem þið eruð að halda inn í og taka til eignar. Haldið þau og fylgið þeim því að það mun sýna öðrum þjóðum visku ykkar og skilning en þær munu segja þegar þær heyra um öll þessi lög: „Þessi mikla þjóð er sannarlega vitur og vel að sér.“ Hver er sú stórþjóð að hún hafi guði jafnnærri sér og Drottinn, Guð okkar, er nærri okkur þegar við áköllum hann? Og hvaða stórþjóð hefur ákvæði og lög sem jafnast á við það lögmál sem ég legg fyrir ykkur í dag?
En vertu varkár og gættu þín vel svo að þú gleymir ekki þeim atburðum sem þú hefur séð með eigin augum. Láttu þá ekki líða þér úr minni meðan þú lifir og þú skalt segja börnum þínum og barnabörnum frá þeim.
Gleymdu ekki deginum þegar þú stóðst frammi fyrir augliti Drottins, Guðs þíns, við Hóreb þegar Drottinn sagði við mig: „Stefndu fólkinu saman svo að það heyri orð mín og læri að óttast mig meðan það lifir í landinu og kenni það einnig börnum sínum.“
Þið komuð og námuð staðar undir fjallinu. Fjallið stóð í björtu báli og eldtungurnar teygðu sig til himins, upp í sorta, ský og myrkur. Þá ávarpaði Drottinn ykkur úr eldinum. Þið heyrðuð þrumuraustina en sáuð ekki mynd neins, þið heyrðuð aðeins hljóminn.
Drottinn birti ykkur sáttmála sinn sem hann bauð ykkur að fylgja, boðorðin tíu. Hann skráði þau á tvær steintöflur.