Því næst héldum við af stað frá Hóreb og fórum gegnum alla þessa miklu og skelfilegu eyðimörk sem þið hafið sjálf séð. Við fórum áleiðis til fjalllendis Amoríta eins og Drottinn, Guð okkar, hafði boðið. Þegar við komum til Kades Barnea sagði ég við ykkur: „Nú eruð þið komin að fjalllendi Amoríta sem Drottinn, Guð okkar, gefur okkur. Sjá! Drottinn, Guð þinn, hefur fengið þér landið í hendur. Farðu þangað og taktu það til eignar eins og Drottinn, Guð feðra þinna, hefur boðið þér. Óttastu ekki og láttu ekki hugfallast!“
Þá komuð þið öll til mín og sögðuð: „Við skulum senda nokkra menn á undan okkur til þess að kanna landið fyrir okkur. Þeir geta síðan lýst leiðinni, sem við eigum að fara, og borgunum sem við eigum að fara inn í.“ Mér féll þetta vel í geð og valdi úr hópi ykkar tólf menn, einn úr hverjum ættbálki. Þeir héldu á leið til fjalllendisins og fóru upp í Eskóldal og könnuðu hann. Þeir tóku með sér nokkuð af ávöxtum landsins og færðu okkur og sögðu: „Það er gott land sem Drottinn, Guð okkar, gefur okkur.“
En þið neituðuð að fara þangað upp eftir og risuð gegn boðum Drottins, Guðs ykkar. Þið mögluðuð í tjöldum ykkar og sögðuð: „Drottinn leiddi okkur út úr Egyptalandi af því að hann hatar okkur. Hann ætlar að selja okkur Amorítum í hendur svo að þeir tortími okkur. Hvert erum við að fara? Bræður okkar gerðu okkur skelfingu lostin. Þeir segja þjóðina hærri vexti og fjölmennari en okkur, borgirnar miklar og girtar múrum sem gnæfa við himin, og segjast auk þess hafa séð Anakíta þar.“
Þá sagði ég við ykkur: „Óttist þá ekki og verið ekki hrædd. Drottinn, Guð ykkar, sem fer fyrir ykkur, mun berjast fyrir ykkur eins og hann gerði fyrir augum ykkar í Egyptalandi. Í eyðimörkinni sást þú hvernig Drottinn, Guð þinn, bar þig eins og maður ber son sinn hvert sem þið fóruð uns þið komuð á þennan stað.“ En þrátt fyrir þetta trúðuð þið ekki á Drottin, Guð ykkar, sem gekk á undan ykkur á leiðinni til að finna tjaldstað handa ykkur. Hann fór fyrir ykkur um nætur í eldi en um daga í skýi til að vísa ykkur veginn sem þið áttuð að halda.