Jesús vissi að allt var þegar fullkomnað. Þá sagði hann til þess að ritningin rættist: „Mig þyrstir.“
Þar stóð ker fullt af ediki. Hermennirnir vættu njarðarvött í ediki, settu hann á ísópslegg og báru að munni honum. Þegar Jesús hafði fengið edikið sagði hann: „Það er fullkomnað.“ Þá hneigði hann höfuðið og gaf upp andann.
Nú var aðfangadagur og til þess að líkin væru ekki á krossunum hvíldardaginn báðu Gyðingar Pílatus að láta brjóta fótleggi þeirra og taka líkin ofan enda var mikil helgi þess hvíldardags. Hermenn komu því og brutu fótleggi þeirra sem með honum voru krossfestir, fyrst annars, svo hins. Þegar þeir komu að Jesú og sáu að hann var þegar dáinn brutu þeir ekki fótleggi hans. En einn af hermönnunum stakk spjóti sínu í síðu hans og rann jafnskjótt út blóð og vatn. Sá er séð hefur vitnar þetta svo að þið trúið líka og vitnisburður hans er sannur. Og hann veit að hann segir satt. Þetta varð til þess að ritningin rættist: „Ekkert bein hans skal brotið.“ Og enn segir önnur ritning: „Þeir munu horfa til hans sem þeir lögðu í gegn.“
Jósef frá Arímaþeu, sem var lærisveinn Jesú en á laun af ótta við ráðamenn Gyðinga, bað síðan Pílatus að mega taka ofan líkama Jesú. Pílatus leyfði það. Hann kom þá og tók ofan líkama hans. Þar kom líka Nikódemus, er fyrrum hafði komið til hans um nótt, og hafði með sér blöndu af myrru og alóe, nær hundrað pundum. Þeir tóku nú líkama Jesú og sveipuðu hann línblæjum með ilmjurtunum eins og Gyðingar búa lík til greftrunar. En á staðnum, þar sem hann var krossfestur, var grasgarður og í garðinum ný gröf sem enginn hafði enn verið lagður í. Þar lögðu þeir Jesú því það var aðfangadagur Gyðinga og gröfin var nærri.