Eftir þetta fór Jesús um Galíleu. Hann vildi ekki fara um Júdeu sökum þess að ráðamenn Gyðinga þar sátu um líf hans.
Nú fór laufskálahátíð Gyðinga í hönd. Þá sögðu bræður Jesú við hann: „Flyt þig héðan og farðu til Júdeu til þess að lærisveinar þínir sjái líka þau verk sem þú gerir. Sá sem vill verða alkunnur starfar ekki í leynum. Fyrst þú vinnur slík verk þá opinbera sjálfan þig heiminum.“ Því jafnvel bræður hans trúðu ekki á hann.
Jesús sagði við þá: „Minn tími er enn ekki kominn en ykkur hentar allur tími. Heimurinn getur ekki hatað ykkur. Mig hatar hann af því ég vitna um að verk hans séu vond. Þið skuluð fara upp eftir á hátíðina. Ég fer ekki til þessarar hátíðar því minn tími er enn ekki kominn.“ Þetta sagði hann þeim og var kyrr í Galíleu.
Þegar bræður Jesú voru farnir upp eftir til hátíðarinnar fór hann samt líka upp eftir, ekki svo menn vissu heldur nánast á laun. Gyðingar voru að leita að honum á hátíðinni og spurðu hvar hann væri. Manna á meðal var margt um hann talað. Sumir sögðu: „Hann er góður,“ en aðrir sögðu: „Nei, hann leiðir fjöldann í villu.“ Þó talaði enginn opinskátt um hann af ótta við yfirvöldin.
Er hátíðin var þegar hálfnuð fór Jesús upp í helgidóminn og tók að kenna. Menn urðu undrandi og sögðu: Hvernig getur þessi maður verið svona lærður? Hann hefur ekki notið fræðslu.“
Jesús svaraði þeim: „Kenning mín er ekki mín heldur hans er sendi mig. Sá sem vill gera vilja hans mun komast að raun um hvort kenningin er frá Guði eða ég tala af sjálfum mér. Sá sem talar af sjálfum sér leitar eigin heiðurs, en sá sem leitar heiðurs þess er sendi hann er sannorður og í honum ekkert ranglæti.