Konan segir við hann: „Drottinn, nú sé ég að þú ert spámaður. Feður okkar hafa tilbeðið Guð á þessu fjalli en þið segið að í Jerúsalem sé sá staður þar sem tilbiðja skuli.“
Jesús segir við hana: „Trú þú mér, kona. Sú stund kemur að þið munuð hvorki tilbiðja föðurinn á þessu fjalli né í Jerúsalem. Þið tilbiðjið það sem þið þekkið ekki. Við tilbiðjum það sem við þekkjum því hjálpræðið kemur frá Gyðingum. En sú stund kemur, já, hún er nú komin, er hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika. Faðirinn leitar slíkra tilbiðjenda. Guð er andi og þeir sem tilbiðja hann eiga að tilbiðja í anda og sannleika.“
Konan segir við hann: „Ég veit að Messías kemur – það er Kristur. Þegar hann kemur mun hann kunngjöra okkur allt.“
Jesús segir við hana: „Ég er hann, ég sem við þig tala.“
Í sama bili komu lærisveinar hans og furðuðu sig á því að hann var að tala við konu. Þó sagði enginn: „Hvað viltu?“ eða: „Hvað ertu að tala við hana?“
Nú skildi konan eftir skjólu sína, fór inn í borgina og sagði við menn: „Komið og sjáið mann er sagði mér allt sem ég hef gert. Skyldi hann vera Kristur?“ Þeir fóru úr borginni og komu til hans.
Meðan þessu fór fram báðu lærisveinarnir hann: „Rabbí, fá þér að eta.“
Hann svaraði þeim: „Ég hef mat að eta sem þið vitið ekki um.“
Þá sögðu lærisveinarnir sín á milli: „Skyldi einhver hafa fært honum að eta?“
Jesús sagði við þá: „Minn matur er að gera vilja þess sem sendi mig og fullna verk hans. Segið þið ekki: Enn eru fjórir mánuðir, þá kemur uppskeran? En ég segi ykkur: Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru fullþroskaðir til uppskeru. Sá sem upp sker tekur þegar laun og safnar ávexti til eilífs lífs. Þá getur sá sem sáir samfagnað þeim sem upp sker. Hér sannast orðtakið: Einn sáir og annar upp sker. Ég sendi ykkur að skera upp það sem þið hafið ekki unnið við. Aðrir hafa erfiðað en þið njótið erfiðis þeirra.“